Erlent

Mikið mannfall í bardögum í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Vígamenn Talibana á ferð um götur Ghazni.
Vígamenn Talibana á ferð um götur Ghazni. Vísir/AP
Varnarmálaráðuneyti Afganistan segir minnst hundrað lögregluþjóna og hermenn hafa fallið í bardögum við Talibana í hinni mikilvægu borg Ghazni. Þar að auki eru minnst tuttugu almennir borgarar fallnir og þar af tíu börn. Bardagar í Ghazni hafa nú staðið yfir í fjóra daga og mun hinum föllnu án efa fjölga.

Ráðuneytið segir að 194 vígamenn Talibana hafi verið felldir. Margir þeirra séu frá Pakistan, Téténíu og Arabaríkjum.

Talibanar gerðu skyndiárás á borgina á föstudaginn og tóku stóran hluta hennar. Þannig stjórna þeir i rauninni einum af stærstu vegunum til Kabúl, höfuðborgar Afganistan. Vegurinn tengir Kabúl við Kandahar og suðurhluta landsins þar sem Talibanar eru hvað öflugastir. Herinn ætlar að senda um þúsund hermenn til viðbótar til Ghazni svo hægt verði að tryggja að hún falli ekki í hendur Talibana.



Bandaríkin hafa sömuleiðis sent hernaðarráðgjafa til aðstoðar.

Undanfarna mánuði hefur árásum Talibana fjölgað verulega og þeir hafa náð tökum á nokkrum héröðum. Þeim hefur hins vegar ekki tekist að ná tökum á þéttbýlum borgum og bæjum.

Sameinuðu þjóðirnar vara við ástandinu í Ghazni og þá sérstaklega hve mikið það kemur niður á almennum borgurum. Skortur er á lyfjum og öðrum nauðsynjum fyrir sjúkrahús í borginni og hafa íbúar ekki geta flutt slasaða þangað vegna bardaga.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×