Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Grindavík 4-0 │Patrick sá um Grindvíkinga

Stefán Árni Pálsson á Origo vellinum skrifar
Patrick fagnar marki sínu í kvöld.
Patrick fagnar marki sínu í kvöld. vísir/daníel
Valsmenn völtuðu yfir Grindvíkinga í 16.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld en leikurinn fór 4-0 á Origo-vellinum.

Patrick Pedersen gerði þrennu í leiknum og var algjörlega frábær. Það var síðan Kristinn Ingi Halldórsson sem skoraði eitt mark undir lokin eftir að Tobias Thomsen misnotaði vítaspyrnu, var hann réttur maður á réttum stað.

Valsmenn spiluðu líklega einn sinn besta leik í sumar í kvöld og eru þeir gríðarlega líklegir til þess að verja titilinn.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn voru einfaldlega miklu betri í kvöld og má segja að Grindvíkingar hafi verið áhorfendur stóran hluta af leiknum. Sóknarleikur Vals og allt spil gekk eins og smurð vél og hefðu fá lið ráðið við þá í kvöld.

Grindvíkingar mættu ekki nægilega vel til leiks í kvöld og fengu því að finna fyrir því.

Íslandsmeistararnir sýndu í kvöld að þeir eru heldur betur klárir í slaginn fyrir lokasprettinn.  

Hverjir stóðu upp úr?

Patrick Pedersen var alveg magnaður í kvöld. Hann skoraði þrjú mörk en hefði alveg getað sett eitt til tvö til viðbótar. Einar Karl Ingvarsson var einnig frábær á miðjunni hjá Val og það sama má segja um Hauk Pál en það komast fátt í gegnum hann. Hjá Grindavík er varla hægt að taka einhvern sérstakan leikmann út fyrir sviga og hrósa honum fyrir góðan leik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Grindvíkinga var í molum í raun. Valsmenn komust oft alltof auðveldlega í gegnum vörn gestanna og var um gatasigti að ræða á tímabili.

Sóknarleikur Grindvíkinga var ekki góður, en liðið náði reyndar að skapa sér 2-3 færi í leiknum, en það verður að nýta þessi færi

Hvað gerist næst?

Valsmenn eru að fara í rosalegan Evrópuleik á fimmtudaginn, en liðið er 1-0 undir gegn Sheriff frá Moldavíu fyrir seinni leikinn. Grindvíkingar halda áfram í baráttunni í deildinni. Erfitt verður fyrir liðið að ná í Evrópusæti en Grindavík fellur aldrei.

Veikur Patrick gerði þrennu
vísir/daníel
„Ég er að hósta mikið, svo þú verður að afsaka mig,“ segir Patrick Pedersen eftir sigurinn á Grindvíkingum í kvöld. Hann skoraði þrennu og lék frábærlega. Daninn var aftur á móti veikur í kvöld og var það ástæðan fyrir því að honum var skipt út af um miðjan síðari hálfleik.

„Þetta var frábær leikur hjá okkur í kvöld og alltaf gaman að skora þrennu. Það mikilvægasta er reyndar að við náðum í þrjú stig. Ég hefði reyndar getað skorað fleiri mörk í kvöld og fékk nokkur góð færi.“

Hann segist hafa haft mjög gott af því að vera tekinn út af undir miðjan seinni hálfleik.

„Þetta verður erfiður leikur á fimmtudaginn, en við eigum heldur betur góðan möguleika. Staðna er bara 1-0 og allt getur gerst.“

Patrick hefur skorað  10 mörk í Pepsi-deildinni í sumar.

„Ég er mjög ánægður með tímabilið hjá mér og mér finnst vera komast í mitt besta form.“

Óli: Maður hallar sér bara til baka og nýtur leiksins á móti svona liði
vísir/daníel
„Úrslitin kannski aðeins of stór en Valsmenn voru betri í dag og það gekk allt upp það sem þeir reyndu. Patrick Pedersen átti til að mynda skot hérna upp í skeytin, þetta var þannig dagur,“ segir Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga, eftir leikinn, í kvöld.

„Við fáum reyndar færi til að skora í fyrri hálfleik og  hefðum hugsanlega getað komið okkur inn í leikinn, en við nýtum þau ekki. Þegar þú ert á svona degi, þá verður þú bara að halla þér til baka og njóta þess að horfa. Við erum hugsanlega einhverjum tveimur árum á eftir Valsmönnum í okkar leik.“

Hann segir að leikmenn liðsins hafi ekki mætt nægilega vel til leiks í kvöld.

„Við mættum bara illa inn í leikinn og það var akkúrat það sem við ætluðum ekki að gera. Þeir pressuðu okkur vel og við bognuðum undan þeim.“

Óli segir að svona leikur sé mikil lexía.

„Við verðum að læra að halda í okkar leik og fara ekki svona auðveldlega út úr okkur skipulagi, þó að leikurinn sé ekki að þróast eins og við viljum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira