Erlent

Kínverjar segja fréttir um stærðarinnar fangabúðir rangar

Samúel Karl Ólason skrifar
Úígúrar eru um 45 prósent íbúa Xinjiang-héraðs.
Úígúrar eru um 45 prósent íbúa Xinjiang-héraðs. Vísir/EPA
Yfirvöld Kína segja rangt að Kínverjum sem tilheyra úígúra-minnihlutahópnum og eru íslamstrúar sé haldið í fangabúðum í massavís. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna segist hafa vísbendingar um að tveimur milljónum manna hafi verið komið fyrir í búðum í Xinjiang-héraði þar sem fólkið þurfi að sæta „endurmenntun“. Fólkið er sagt hafa verið handsamað fyrir það eitt að vera islamstrúar eða vera úígúrar.

Kínverjar segja múslima og úígúranjóta fullra réttinda en öfgamenn þurfi að sæta endurmenntun og vera fluttir um set, samkvæmt BBC.



Þetta kom fram á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þar sagði formaður sendinefndar Kína að fregnir af því að milljón úígúra væru í fangabúðum vera ósannar. Gay McDougal, meðlimur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hefur farið fram á svör um hve margir séu í fangabúðum og hve margir hafi fengið endurmenntun.

Átök og óeirðir stinga reglulega upp kollinum í Xinjiang-héraði og þeim fylgja iðulega hörð viðbrögð stjórnvalda í Peking. Úígúrar eru um 45 prósent íbúa Xinjiang-héraðs, sem er tæknilega skilgreint sem „sjálfstjórnarsvæði“ innan Kína. Það er Tíbet einnig.

Fregnir af fangabúðunum hafa verið á kreiki um nokkra mánaða skeið og hafa mannréttindasamtök vakið athygli á þeim. Mannréttindasamtök hafa haldið því fram að rúmlega fimmtungur allra handtaka í Kína í fyrra hafi átt sér stað í Xinjiang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×