Innlent

Segir formann VR tala gegn hagsmunum stórs hluta félagsmanna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Námsmaður segir að formaður VR hafi talað gegn hagsmunum stórs hluta félagsmanna þegar hann hvatti verslunarfólk til að skella í lás á frídegi verslunarmanna. Formaður segir útilokað að koma til móts við alla félagsmenn.

Starri Reynisson birti í dag opið bréf til formanns VR þar sem hann harmar ummæli hans og telur þau ganga þvert á vilja námsmanna, sem sé stór hópur félagsmanna VR.

„Mér var virkilega ofboðið vegna þess að nú eru námsmenn á vinnumarkaði stór hluti félagsmanna VR. Fyrir okkur getur það skipt gífurlega miklu máli að hafa þann möguleika að vinna á stórhátíðardögum. Svo ég tali nú ekki um okkur sem erum á leigumarkaði. Hér er formaðurinn að tala gegn hagsmunum þeirra,“ segir Starri Reynisson, námsmaður.

Formaður VR fagnar gagnrýni félagsmanna sinna en segir útilokað að koma til móts við þá alla.

„Er honum treystandi til að leiða kjarabaráttu ef hann getur ekki talað fyrir hagsmuni allra félagsmanna,“ segir Starri.

„Ég treysti mér til að verja hagsmuni minna félagsmanna. Þeir eru margir, yfir 35 þúsund. Þeir koma úr mismunandi starfstéttum, þeir hafa mismunandi menntun og eru á mismunandi launum. Þeir eru margir í eigin húsnæði, sumir á leigumarkaði. Við höfum verið að gagnrýna leigumarkaðinn. Þetta er því fjölbreyttur hópur en það væri mótsögn fyrir félagið sjálft ef við myndum ekki beita okkur fyrir þvi að verslunarmenn fengu fri þennan dag,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VRSkjáskot úr frétt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×