Erlent

Ákærður fyrir manndráp eftir að ríkissaksóknari sneri við ákvörðun lögreglustjóra

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Michael Drejka varð Markeis McGlockton að bana þann 19. júlí síðastliðinn.
Michael Drejka varð Markeis McGlockton að bana þann 19. júlí síðastliðinn. Vísir/AP
Michael Drejka, sem varð Markeis McGlockton að bana í Flórída þann 19. júlí síðastliðinn, hefur verið ákærður fyrir manndráp. Þetta tilkynnti ríkissaksóknari Flórídaríkis í dag. CNN greinir frá þessu.

Áður hafði lögreglustjóri Pinellas-sýslu, hvar Drejka skaut McGlockton til bana, gefið það út að Drejka yrði ekki ákærður. Væri sú ákvörðun tekin á grundvelli svokallaðra „stand your ground“ laga sem eru í gildi í Flórída. Lögin kveða á um að hver sá sem telji sér ógnað megi grípa til þeirra úrræða sem þeim þykir þurfa, svo lengi sem ógnin sé raunveruleg og að sá sem telji sér ógnað sé ekki viðriðinn ólöglegt athæfi á meðan.

Nú hefur ríkissaksóknarinn í Flórída komist að þeirri niðurstöðu að lögin eigi ekki við í þessu tilfelli og að Drejka hafi ekki lengur staðið ógn af McGlockton þegar hann tók í gikkinn. Því verður Drejka ákærður fyrir manndráp. 

Forsaga málsins er sú að McGlockton veittist að Drejka og hrinti honum til jarðar eftir að Drejka hafði lent í rifrildi við kærustu McGlocktons, þar sem hún hafði lagt í bílastæði ætlað fötluðum. Eftir það dró Drejka upp skammbyssu og hleypi af einu skoti sem hæfði McGlockton og varð honum að bana.

Fjölskylda McGlocktons hefur fagnað ákvörðun ríkissaksóknarans opinberlega og segist vona að ákvörðunin verði til þess að „sannleikurinn sigri og að réttlætið verði ofan á að lokum.“

Meðal þess sem saksóknarinn notaðist við þegar hann tók ákvörðun sína var myndbandsupptaka úr öryggismyndavél sem náðist af atvikinu, en það má sjá hér að neðan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×