Erlent

Fjölbragðaglímukappinn Jim Neidhart látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jim Neidhart var einn þekktasti fjölbragðaglímukappi níunda áratugarins.
Jim Neidhart var einn þekktasti fjölbragðaglímukappi níunda áratugarins. MYND/WWE
Bandaríski fjölbragðaglímukappinn Jim Neidhart, einnig þekktur undir nafninu „The Anvil“, er látinn, 63 ára að aldri.

Neidhart var einn þekktasti fjölbragðaglímukappi níunda áratugarins og var þekktur fyrir sitt rauða skegg og bleikan glímubúning sinn.

Neidhart og mágur hans Bret Hart gengu saman undir nafninu The Hart Foundation í glímuheiminum og unnu þeir tvívegis til verðlauna í paraflokki á heimsmótinu í fjölbragðaglímu. Hann keppti síðast árið 1997.

Hart minnist Neidhart á samfélagsmiðlum í dag með mynd af þeim félögunum saman þegar þeir stóðu á hátindi ferils síns. Segist hann mjög hryggur og orðlaus vegna fréttanna af andláti félaga síns.

Í frétt Sky News segir að Neidhart hafi látist eftir að hafa hrasað á heimili sínu og rekið höfuðið í.

Áður en hann hóf feril sinn sem fjölbragðaglímukappi spilaði hann amerískan fótbolta með liðum Oakland Raiders og Dallas Cowboys.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×