Erlent

Mótmæli þegar jemensku börnin voru borin til grafar

Atli Ísleifsson skrifar
Vísir/ap
Þúsundir manna komu saman til að mótmæla hernaðaraðgerðum Sáda og bandamanna þeirra í Jemen í dag þar sem útför barna sem létu lífið í loftárás á dögunum fór fram.

Fimmtíu manns, þar af fjörutíu börn fimmtán ára eða yngri, fórust í árás hers Sáda á rútu á markaði í bænum Dahyan í Saada-héraði í norðvesturhluta Jemen síðastliðinn fimmtudag.

Útförin fór fram í bænum Saada og var grænum kistunum stillt upp með myndum af fórnarlömbunum.

Þúsundir höfðu komið þar saman þar sem mótmælaskilti voru áberandi, meðal annars með skilaboðum um að Bandaríkin bæru ábyrgð á dauða jemenskra barna, en bandamenn njóta ráðgjafar bandaríska, breska og franska hersins í baráttunni gegn uppreisnarmönnum Húta í Jemen.

Hernaðarbandalagið, sem er undir stjórn Sáda, tilkynnti á föstudaginn til stæði að rannsaka árásina og hafa Sameinuðu þjóðirnar kallað eftir trúverðugri rannsókn.

Sádar hafa síðustu mánuði sakað uppreisnarmenn í Jemen um að nýta sér óbreytta borgara sem mannlega skildi í átökunum í landinu.


Tengdar fréttir

Hútar fagna ákalli um óháða rannsókn

Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir rannsókn á árás sem kostaði tugi barna lífið. Uppreisnarmenn í Jemen fagna kallinu og segjast tilbúnir til samvinnu. Framkvæmdastjóri UNICEF segir árásirnar svartasta dag stríðsins. Sádi-Arabar segjast ætla að rannsaka málið sjálfir.

Forsaga hörmunganna í Jemen - fyrri hluti

Reglulega berast Íslendingum samhengislitlar fréttir af neyð og skelfingum í Jemen. Þar ríkir stríðsástand og hungursneyð sem gerir landið að versta hörmungasvæði heims um þessar mundir að mati Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×