Fótbolti

37 ára Eto´o búinn að semja í Katar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Frá Tyrklandi til Katar
Frá Tyrklandi til Katar vísir/getty
Kamerúnska knattspyrnugoðsögnin Samuel Eto´o er búinn að finna sér nýtt lið eftir stutta dvöl hjá Konyaspor í Tyrklandi undir lok síðustu leiktíðar.

Þessi 37 ára gamli framherji hefur gert samning við Qatar SC og mun leika með liðinu í úrvalsdeildinni þar í landi sem nefnist Qatar Stars League en liðið vann sér keppnisrétt í deildinni með sigri í B-deildinni á síðustu leiktíð.

Eto´o yfirgefur því Evrópu eftir 20 ára feril þar sem hann lék á Spáni, Ítalíu, Rússlandi, Englandi og Tyrklandi og skipti reglulega á milli félaga en hann hefur leikið með tólf liðum á ferlinum. Þar á meðal stórliðum á borð við Barcelona, Inter Milan og Chelsea en hann vann Meistaradeild Evrópu þrívegis.

Hann mun klárlega vera eitt stærsta nafn deildarinnar í Katar en mun þó mæta öðrum stórstjörnum. Til að mynda fyrrum liðsfélaga sínum hjá Barcelona, Xavi. Þá leika þeir Gabi og Wesley Sneijder einnig í deildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×