Erlent

Kveikt í rúmlega 80 bílum í Svíþjóð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vitni segjast hafa séð dökk- og grímuklædda menn bera eld að bílunum.
Vitni segjast hafa séð dökk- og grímuklædda menn bera eld að bílunum. SVT

Borinn var eldur að fjölda bíla í sænsku borgunum Gautaborg og Trollhättan í nótt. Þá voru lögreglumenn grýttir í síðarnefndu borginni. Lögreglustjórinn Ulla Brehm segir að þó að sænska lögreglan hafi áður þurft að eiga við brennuvarga minnist hún þess ekki að eldur hafi verið borinn að svo mörgum bílum á svo mörgum stöðum á sama tíma. Sænskir fjölmiðlar ætla að rúmlega 80 bílar hafi orðið brennuvörgum að bráð í gærkvöld.

Fyrst bárust tilkynningar af eldsvoðum í norðausturhluta Gautaborgar um klukkan 21 að staðartíma í gærkvöldi. Skömmu síðar fékk lörgreglan tilkynningu um hóp fólks sem virtist bera eld að bílum á bílastæði við Frölunda-torg. Í Tröllhättan var samtímis kveikt í bílum, dekkjum og vörubrettum. Þá var kveikt í nokkrum bílum til viðbótar um klukkan 23, í hverfunum Gårdsten og Tynnered.

Þegar lögreglan mætti til að aðstoða slökkviliðsmenn í Trollhättan á hún að hafa orðið fyrir grjótkasti ungmenna. Fjöldi ungs fólks, sem huldi andlit sitt, er sagður hafa grýtt lögregluþjónana og segir lögreglustjórinn Ulla Brehm í samtali við SVT að ekki hafi verið hægt að bera kennsl á grjótkastarana sökum dulargervanna.

Vitni segjast í samtali við sænska ríkisútvarpið hafa séð dökkklæddan hóp kveikja í bílum í Frölunda. Í myndbandi á vef SVT má sjá hvernig hópur brennuvarga gengur á milli bíla og kveikir í þeim. Eitt vitnanna segist hafa séð á bilinu 8 til 10 grímuklædda menn, vopnaða hafnaboltakylfum og bensínbrúsum.

Þrátt fyrir eldhafið hafa ekki borist neinar fregnir af manntjóni. Lögreglan rannsakar nú hvort einhver tengsl séu milli eldanna, sem kviknuðu sem fyrr segir á mörgum stöðum á nokkurn veginn sama tíma. Lögreglan biðlar til foreldra að þeir lykti af fötum barna sinna. Finni þeir bensínlykt skulu þeir hafa tafarlaust samband við lögregluna.

Enginn hefur verið handtekinn vegna eldanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.