Enski boltinn

Sjáðu magnað myndband af sigurmarki Birkis Bjarna í 360° myndavél

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason fagnar hér sigurmarki sínu.
Birkir Bjarnason fagnar hér sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason var hetja Aston Villa í 3-2 sigri á Wigan Athletic í ensku b-deildinni um helgina.

Birkir hafði enn á ný úthald í góðan sprett í blálokin (muna ekki allir eftir Austurríkileiknum á EM 2016) og skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Birkir var þá réttur maður á réttum stað í markteignum og kom tryggði Villa mönnum öll þrjú stigin.

Aston Villa var mjög sátt með íslenska landsliðsmanninn og setti myndband af sigurmarkinu inn á Youtube-síðu félagsins.

Þetta er hins vegar svolítið sérstakt myndband því það var tekið upp með 360° myndavél fyrir aftan markið.

Myndbandið magnaða má sjá hér fyrir neðan. Prófið að hreyfa tölvumúsina á meðan þið horfið.





Fyrir leikinn var orðrómur um að Birkir væri á förum frá félaginu en hann minnti heldur betur á sig þarna.

Birkir fékk aðeins sjö mínútur í fyrsta leiknum en spilaði allar 90 mínúturnar í þessum leik.

Aston Villa hefur unnið báða leiki sína á tímabilinu og skorað í þeim sex mörk.

Birkir Bjarnason skoraði þrjú mörk fyrir Aston Villa í ensku b-deildinni á síðustu leiktíð en hann skoraði þá á móti Bristol City, Wolves og Reading.

Fyrsta markið hans þá kom hins vegar ekki fyrr en á nýársdag og markið um helgina er því fjórða deildarmark Birkis á árinu 2018. Aston Villa hefur unnið alla þessa fjóra leiki þar sem Birkir hefur verið á skotskónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×