Skoðun

Endurbætur á vegakerfinu aldrei meiri en nú

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Vegakerfi okkar samfélags er yfir 12 þúsund kílómetrar að lengd. Umferð hefur stóraukist, ekki síst vegna komu ferðamanna sem flestir fara út á vegina yfir sumarið. Árið 2010 kom hingað um hálf milljón ferðamanna, sjö árum seinna voru þeir 2,2 milljónir. Á síðustu tíu árum hefur umferðin aukist um 30% á hringveginum. Á sama tíma hefur vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð fjármuna. Það er því víða laskað og þörf á viðhaldi og þjónustu afar aðkallandi.

Auknir fjármunir

Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.



Aukinn kostnaður

Aukinni umferð fylgir aukinn kostnaður. Á síðustu árum hafa framlög til vegakerfisins verið í öfugu hlutfalli við fjölda notenda og ekna kílómetra á vegum. Afleiðing þess er að ýmsar brýnar framkvæmdir til að auka umferðaröryggi, hafa setið á hakanum. Hægt yrði að tvöfalda þá upphæð sem rynni til vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum, s.s. brúm og göngum. Það er ein þeirra leiða sem eru í skoðun til að tryggja aukið fjármagn í vegakerfið til framtíðar – til hagsbóta fyrir okkur öll.



Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×