Enski boltinn

Messan um Sanchez: Var hæfileikum hans stolið eins og í Space Jam?

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sanchez var lengi einn besti maður Arsenal en hefur ekki fundið sig í Manchester-borg
Sanchez var lengi einn besti maður Arsenal en hefur ekki fundið sig í Manchester-borg Vísir/Getty
Manchester United byrjaði tímabilið í ensku úrvalsdeildinni á 2-1 sigri á Leicester í opnunarleiknum á Old Trafford. Einn maður stóð upp úr í leik United, og ekki á góðan hátt.

Alexis Sanchez kom til Manchester United í janúar og hann náði ekki að komast á skrið með nýju liði á seinni hluta síðasta tímabils. Hann virðist ætla að byrja nýtt tímabil eins og hann kláraði það síðasta.

Sérfræðingarnir í Messunni á Stöð 2 Sport ræddu frammistöðu Sanchez og sagði Ríkharð Óskar Guðnason að Sanchez hefði lent í „Space jam“ og vísaði þar til samnefndrar kvikmyndar þar sem körfuboltaskrímsli stelur hæfileikunum af Michael Jordan og fleiri stjörnum og þeir verða lélegir.

„Ég horfði á þennan leik á föstudaginn og ég hélt á tímabili að hann væri bara að grínast,“ sagði Ríkharð.

„Hann kom ekki vel inn í liðið þegar hann var keyptur í fyrra, átti erfitt með að ná takti, og hann virðist einhvern veginn ekki passa inn í það sem Manchester United er að gera,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson.

Jóhannes Karl Guðjónsson tók undir gagnrýnina. „Það sem mér finnst ennþá sorglegra er að þessi sprengikraftur sem hann hafði til þess að taka hlaup og fara aftur fyrir, það er eitthvað ekki alveg eins og það á að vera.“

Gunnleifur benti þó á að Jose Mourinho sé að spila sama upplag og hann gerði á síðasta tímabili þegar stuðningsmenn hrifust ekki af spilamennskunni en liðið náði þó í stig. Ef Mourinho er ekki að biðja um neitt meira frá Sanchez, afhverju ætti hann þá að spila öðruvísi en hann gerði á síðasta tímabili?

„Er það samt ekki á Mourinho að ná því besta út úr honum? Hann hefur hæfileika en það er eitthvað í gangi hjá honum,“ svaraði Jóhannes Karl.

Umræðuna úr þættinum má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×