Innlent

Sjaldgæfur hvítur hrossagaukur spókar sig um í Vestmannaeyjum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hrossagaukurinn hleypti ljósmyndara nálægt.
Hrossagaukurinn hleypti ljósmyndara nálægt. Fréttablaðið/Óskar P. Friðriksson
„Þetta er hrossagaukur og þetta er albínói,“ segir Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, um alhvíta fuglinn sem varð á vegi Óskars P. Friðrikssonar í Vestmannaeyjum í gærmorgun.

Sjálfur kveðst Ólafur aldrei hafa séð hrossagauk sem var albínói. „Þeir eru mjög sjaldgæfir,“ segir hann. „Ég man ekki eftir hrossagauk sem algjörum hvítingja. Ég hef séð hrossagauk þar sem vantar litarefni í þá en þetta virðist vera alger hvítingi.“

Ólafur segir að um fullvaxinn hrossagauk sé að ræða. Fátítt sé að fuglar sem eru albínóar komist upp og verði kynþroska því litarleysið geri þeim erfitt fyrir. „Þeir standa höllum fæti; eiga erfitt með að leynast af því að þeir eru ekki í felubúningi eins og félagar þeirra og leynast ekki á hreiðri,“ útskýrir hann.

Óskar P. Friðriksson kom auga á hrossagaukinn og náði myndum af fuglinum þar sem hann spígsporaði nærri runnum við Hamarsveg í byggðinni vestast á Heimaey.

„Fuglinn var rólegur og komst ég upp að honum, allt að einum og hálfum metra,“ segir Óskar. Hann hafi heyrt að albínóar hafi áður komið úr hreiðri hrossagaukspars við Vestmannaeyjaflugvöll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×