Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Flórída vegna „Rauða flóðsins“

Samúel Karl Ólason skrifar
Fiskar og önnur dýr hafa drepist í massavís og rekið á land með tilheyrandi lykt.
Fiskar og önnur dýr hafa drepist í massavís og rekið á land með tilheyrandi lykt. Vísir/AP

„Rauða flóðið“ eins og það er kallað í Bandaríkjunum hefur leitt til þess að ríkisstjóri Flórída hefur lýst yfir neyðarástandi. Um er að ræða þörung sem drepið hefur fiska og önnur dýr í massavís og valdið hafa öndunarörðugleikum á landi. Lyktin af dauðum fiskum hefur rekið ferðamenn á brott.

Skjaldbökur, sækýr og stærðarinnar hákarl hafa rekið dauðar á land vegna þörungsins sem ber nafnið Karenia brevis.

Þörungurinn getur einnig borist í andrúmsloftið og hafa fjölmargir eldri borgarar í Flórída kvartað undan öndunarörðugleikum. Um helmingsfjölgun hefur orðið í heimsóknum á sjúkrahús á svæðinu, samkvæmt Washington Post.

Rick Scott, ríkisstjórinn, hefur lofað 1,5 milljónum dala í neyðarsjóð vegna ástandsins. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í sjö sýslum Flórída.

„Það er enginn fiskur eftir. Rauða flóðið hefur drepið þá alla,“ segir vísindamaðurinn Rick Bartleson við WP. Hann segir að sýni úr sjónum við Flórída sýni banvænt magn af þörungnum. Þörungurinn finnst víða í náttúrunni en undanfarna mánuði hefur styrkur hans í sjónum við Flórída aukist verulega.

Einn íbúi sem rætt var við segist ekki einu sinni geta hleypt köttum sínum út úr húsi vegna mengunar frá þörungnum. Íbúa svíði í augun og hálsana.

Vísindamenn reyna nú að átta sig á því af hverju þetta ástand hefur myndast. Rauða flóðið hefur verið vel skrásett allt frá 1840 og spænskir landkönnuðir töluðu um það á sextándu öldinni. Hins vegar hefur umfang mengunarinnar verið að aukast á undanförnum áratugum. Ekki er útilokað að hnattræn hlýnun spili þar inni.

Þá hafa rannsakendur leitað leiða til að drepa þörunginn en rannsóknir ganga hægt þar sem ekki er vitað hvaða áhrif slíkar aðgerðir myndu hafa á lífríkið. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.