Fótbolti

Ekkert til í því að Godin hafi notfært sér Man Utd

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Godin undirbýr sig fyrir stórleik gegn Real Madrid í kvöld
Godin undirbýr sig fyrir stórleik gegn Real Madrid í kvöld vísir/getty
Varnarmaðurinn öflugi Diego Godin segir ekkert til í þeim sögum sem segja að hann, í samstarfi við umboðsmann sinn, hafi notfært sér áhuga frá Man Utd til að fá betri samning hjá Atletico Madrid.

Godin var óvænt orðaður við Man Utd á lokadegi enska félagaskiptagluggans en ekkert varð úr því og í kjölfarið greindu fjölmiðlar frá því að þessi 32 ára gamli Úrugvæi væri búinn að gera nýjan og endurbættan samning við Atletico Madrid.

Þessar fréttir eru hins vegar uppspuni frá rótum því Godin hefur ekki gert nýjan samning við spænska félagið.

„Ég hef ekki framlengt samning minn. Það hafa borist tilboð annars staðar frá en ég tók strax ákvörðun um að halda áfram hér og fyrir því eru persónulegar ástæður,“ er haft eftir Godin.

„Nú er ég bara að hugsa um úrslitaleikinn en það er ekki rétt að ég hafi skrifað undir nýjan samning. Ég sá þessar fréttir sem voru skrifaðar en ég veit ekki hvernig þær urðu til,“ segir Godin.

Úrslitaleikurinn sem Godin talar um er leikur Atletico og Real Madrid í Tallinn, Eistlandi í kvöld en þar munu þessi nágrannalið berjast um Ofurbikar Evrópu. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin klukkan 18:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×