Enski boltinn

Langmikilvægasti leikmaður Crystal Palace framlengir um fimm ár

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Zaha var orðaður við Tottenham og Chelsea í sumar.
Zaha var orðaður við Tottenham og Chelsea í sumar. vísir/getty
Kantmaðurinn öflugi Wilfried Zaha hefur undirritað nýjan samning við enska úrvalsdeildarliðið Crystal Palace.

Samningurinn er til ársins 2023 og mun færa Zaha um 130 þúsund pund í vikulaun ef marka má fréttir frá Englandi.

Þessi 25 ára gamli leikmaður sló ungur í gegn hjá Palace þar sem hann lék fyrst fyrir aðalliðið 18 ára gamall. Hann var keyptur til Manchester United árið 2013 en náði ekki að festa sig í sessi hjá enska stórveldinu og sneri fljótt aftur til uppeldisfélagsins.

Langmikilvægasti leikmaður liðsinsÓhætt er að segja að Zaha hafi verið í algjöru lykilhlutverki hjá Palace undanfarin ár og má liðið illa við því að leika án hans.

Raunar tapaði liðið öllum þeim 10 leikjum sem hann missti af vegna meiðsla á síðustu leiktíð en náði svo góðum úrslitum með Zaha innanborðs enda hafnaði liðið í 11.sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Zaha skoraði níu mörk á síðustu leiktíð og var valinn leikmaður ársins hjá félaginu, þriðja árið í röð.

Hann lék fyrir öll yngri landslið Englands og spilaði einnig tvo vináttuleiki með A-landsliðinu áður en hann ákvað að leika fyrir landslið Fílabeinsstrandarinnar. Hefur hann leikið átta landsleiki og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×