Körfubolti

111 stelpur komu í Stelpubúðir Helenu: „Hversu geggjað?“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/andri marínó
Besta körfuboltakona landsins, Helena Sverrisdóttir, hélt sínar árlegu stelpubúðir um síðustu helgi en þær fóru nú fram í ellefta sinn.

Það er óhætt að segja að vel hafi verið mætt í Stelpubúðir Helenu og Hauka 2018 því Helena segir frá því á Fésbókinni í dag að 111 stelpur hafi komið í búðirnar í ár.

Þetta er því annað árið í röð sem Helena fær yfir hundrað ungar körfuboltastelpur til síns.

„Hversu geggjað?? 111 stelpur í búðunum hjá okkur seinustu helgi. 2008 byrjaði þetta sem lítill draumur um æfingabúðir bara fyrir stelpur svo þær gætu virkilega notið sín og núna yfir 100 annað árið í röð,“ skrifaði Helena.

Helena á mikið hrós skilið fyrir framtak sitt enda ómetanlegt fyrir ungar körfuboltakonur að fá tækifæri til að læra af þeirri bestu.

Helena var kosinn besti leikmaður Domino´s deildar kvenna á síðustu leiktíð og samdi síðan við ungverska félagið Ceglédi EKK í sumar.

Þetta var í fimmta sinn sem Helena er kosin best í úrvalsdeild kvenna en hún hefur verið kosin best á fimm síðustu fullu tímabilum sínum í deildinni.

Helena er nú aftur komin út í atvinnumennsku en hún hefur áður spilað í Slóvakíu, Pólland og Ungverjalandi þar sem hún lék síðast með liði Diósgyőri VTK tímabilið 2013-14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×