Erlent

Ríkisstjórn Orban vill banna kynjafræði

Kjartan Kjartansson skrifar
Orban forsætisráðherra Ungverjalands virðist standa stuggur af kynjafræði.
Orban forsætisráðherra Ungverjalands virðist standa stuggur af kynjafræði. Vísir/EPA
Ungverskum háskólum verður bannað að kenna kynjafræði ef tillaga ríkisstjórnar Viktors Orban forsætisráðherra nær fram að ganga. Ríkisstjórnin vill banna fræðigreinina á þeim forsendum að atvinnurekendur hafi ekki sýnt kynjafræðingum mikinn áhuga.

Breska blaðið The Telegraph segir að bannið tæki gildi á næsta ári. Andstæðingar Orban segja að bannið sé hluti af herferð hans gegn samtökum og stofnunum sem leggjast gegn íhaldsstefnu hans og Fidesz-flokksins.

Andrea Preto, prófessor í kynjafræði við Miðevrópska háskólann, segir við blaðið að bannið sé hættulegt fordæmi um ríkisinngrip í háskólanámskeið. Bannið stangist á við stjórnarskrá Ungverjalands sem tryggi frelsi til vísindarannsókna og kennslu.

Orban hefur lýst yfir vilja til að koma á „ófrjálslyndu lýðveldi“ í Ungverjalandi þar sem kristin fjölskyldugildi eru í hávegum höfð. Óháðir fjölmiðlar hafa átt undir högg að sækja í Ungverjalandi frá því að Orban komst til valda árið 2010. Auðugir bandamenn Orban hafa keypt fjölmiðla og stofnað nýja sem eru honum hliðhollir. Aðrir miðlar sem hafa verið andsnúnir ríkisstjórn Orban hafa neyðst til þess að leggja upp laupana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×