Innlent

Hreiðraði um sig í ræstikompu hótels í miðborginni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn var ekki gestur á umræddu hóteli í miðborg Reykjavíkur.
Maðurinn var ekki gestur á umræddu hóteli í miðborg Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm
Um klukkan 6:30 í morgun var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna karlmanns í annarlegu ástandi sem hafði hreiðrað um sig í ræstingaherbergi hótels í miðborg Reykjavíkur. Maðurinn var ekki gestur á hótelinu, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Var honum vísað út og ekki gerðar frekari kröfur á hendur honum.

Nokkrum mínútum fyrr, klukkan 6:19, hafði lögreglu borist tilkynning um karlmann sem bankaði á glugga á íbúð í hverfi 105 í Reykjavík. Tilkynnandi þekkti manninn ekki og gerði lögreglu viðvart sem kom á vettvang og ræddi við manninn.

Í ljós kom að maðurinn hafði farið húsavillt og fékk hann að fara leiðar sinnar eftir afskipti lögreglu.

Á tíunda tímanum í morgun var tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 111. Ekki fengust frekari upplýsingar um málið í tilkynningu lögreglu.

Þá voru tveir ökumenn handteknir í morgun vegna  gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hvorugur þeirra var með ökuréttindi. Báðir ökumennirnir voru frjálsir ferða sinna að lokinni blóðsýna- og skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×