Erlent

Trump afturkallar öryggisheimild fyrrverandi yfirmanns leyniþjónustunnar

Atli Ísleifsson skrifar
John O. Brennan stýrði leyniþjónustunni CIA á árunum 2013 til 2017.
John O. Brennan stýrði leyniþjónustunni CIA á árunum 2013 til 2017. Vísir/AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur afturkallað öryggisheimild John Brennan, fyrrverandi yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Brennan hefur gagnrýnt forsetann harðlega á síðustu mánuðunum og verður honum nú meinað um aðgang að leynilegum upplýsingum stjórnvalda.

Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, greindi frá ákvörðun forsetans síðdegis í dag. Í yfirlýsingu frá forsetanum kom fram að Brennan hafi sýnt af sér „óútreiknanlega hegðun“ að undanförnu.

Brennan lýsti því yfir í júlí að hegðun forsetans á fundi hans og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta hafi jafnast á við landráð. Þá sagði hann að styrk stoð væri fyrir rannsókn á tengslum forsetaframboðs Trumps og rússneskra stjórnvalda.

Trump hættulegur bandarísku þjóðinni

Fyrr í dag sagði Brennan í tísti að það væri ótrúlegt að forsetinn gæti ekki sýnt af sér lágmarksvelsæmi, kurteisi eða réttsýni. Þá sagði hann ljóst að Trump myndi aldrei gera sér grein fyrir því hvað fælist í því að vera forseti eða góð og heiðarleg manneskja. Slíkt gerði hann dapran og væri forsetinn hættulegur bandarísku þjóðinni.

Fyrrverandi yfirmenn leyniþjónustunnar hafa haldið öryggisheimildum sínum eftir að þeir láta af störfum, meðal annars til að eftirmenn þeirra geti ráðfært sig við þá.

Brennan stýrði leyniþjónustunni CIA á árunum 2013 til 2017.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×