Enski boltinn

Er staðan hjá Mourinho og Pogba jafnslæm og segir á þessari forsíðu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba og Jose Mourinho.
Paul Pogba og Jose Mourinho. Vísir/Getty
Hvað áttu að gera þegar deilur knattspyrnustjórans þíns og stærstu stjörnu liðsins eru orðnar efni í dramatískar forsíður ensku blaðanna? Manchester United er í slíkri stöðu og margir bíða forvitnir eftir útkomunni.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, lét Paul Pogba fá fyrirliðabandið í fyrsta leik tímabilsins á móti Leicester City þar sem Pogba skoraði og Manchester United vann.

Ummæli Paul Pogba eftir leikinn komu því mörgum á óvart. Það er bæði það að Pogba hefur verið mjög latur við að gefa enskum fjölmiðlamönnum viðtöl en líka það að United liðið var nýbúið að vinna góðan sigur.

Pogba var hins vegar ósáttur og hann var ekkert að fela það í þessu viðtali þar sem franski heimsmeistarinn sagði meðal annars að hann gæti ekki sagt satt frá því annars yrði hann bara sektaður.

Þetta viðtal Frakkans var eins og olía á eld hvað varðar sögusagnir um slæmt samband á milli Pogba og knattspyrnustjórans Jose Mourinho.

Enska slúðurblaðið Sun slær upp ansi sláandi stöðu á samsiptum þeirra á forsíðu sinni í morgun eins og sjá má hér fyrir neðan.



Þar halda blaðamenn Sun því fram að Jose Mourinho hafi verið mjög ósáttur við þetta viðtal Pogba og að portúgalski stjórinn hafi skipað leikmanninum að tala við sig en ekki fjölmiðla ef að það væri eitthvað vandamál.

Samkvæmt forsíðu Sun þá átti Pogba þá að hafa bent Jose Mourinho að tala við sig í gegnum umboðsmanninn sinn.

Paul Pogba hefur verið mikið orðaður við Barcelona og það má búast við því að sögusagnir um brotthvarf hans frá Old Trafford verði sprellilifandi þar til að félagsskiptaglugginn lokar í Evrópu.  

Það verður síðan mjög fróðlegt að fylgjast með framvindu mála og sjá hvert hlutverk Paul Pogba verður í leik helgarinnar hjá Manchester United sem er á móti Brighton & Hove Albion á sunnudaginn.

Mun Paul Pogba spila þann leik? Verður hann áfram með fyrirliðabandið? Mun hann halda áfram að tala til Jose Mourinho í gegnum fjölmiðla?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×