Enski boltinn

Jóhann Berg spilar í elsta liðinu í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson með liðsfélögum sínum í elsta liði ensku úrvalsdeildarinnar, Burnley.
Jóhann Berg Guðmundsson með liðsfélögum sínum í elsta liði ensku úrvalsdeildarinnar, Burnley. Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildin er farin af stað og félagsskiptaglugginn er lokaður. Það var því tilvalið að bera saman leikmannahópa liðanna tuttugu sem skipa ensku úrvalsdeildina í vetur.

Sky Sports lagðist einmitt í slíkan samanburð á liðunum en hvert þeirra tilkynnti inn 25 manna leikmannalista. Félögin eiga þó möguleika á að kalla inn leikmenn sem eru undir 21 árs. Sky Sport kannaði meðalaldur, meðalhæð og reynslu leikmannahópanna.

Margir búast við miklu af nýliðum Wolves í vetur en þeir eru með yngsta meðalaldurinn í deildinni en hann er aðeins 24 ár og átta mánuðir. Næstu lið eru Southampton og Fulham en Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eru síðan í fjórða sæti á listanum yfir yngstu lið deildarinnar.

Elsta lið deildarinnar er aftur á móti lið Jóhanns Berg Guðmundssonar og félaga í Burnley en meðalaldur leikmannahópsins eru 28 ár. Næstu lið eru síðan Brighton, Cardiff City og Crystal Palace.





Manchester United er með lægsta meðalaldurinn af stóru klúbbunum (25 ár og 1 mánuður) en Manchester City og Liverpool koma skammt á eftir. Arsenal og Chelsea eru með elstu leikmannahópana af risum deildarinnar.

Elsti leikmaður deildarinnar er Julian Speroni, markvörður Crystal Palace (39 ára) en sá yngsti er Callum Hudson-Odoi hjá Chelsea sem er bara 17 ára og 287 daga gamall.

Watford er með hæstu meðalhæðina í deildinni eða 185,4 sentímetra en næst á eftir koma Huddersfield (184,7) og Crystal Palace (184,0). Í næstu sætum eru síðan Chelsea (183,6) og Manchester United (183,5).

Lágvaxnasta lið deildarinnar eru aftur á móti Englandsmeistarar Manchester City en meðalhæð liðsins er aðeins 179,7 sentimetrar. City er eina liðið undir 180 sm í meðalhæð. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton eru þarna í 3. sæti (181,5) en á milli þeirra og City er lið Bournemouth. Næstu lið eru síðan Cardiff (181,7) og Liverpool (181,8)

Hæsti leikmaður deildarinna er Fraser Forster, markvörður Southampton, sem er 201 sentímetri á hæð en sá lægsti er Angel Gomes hjá Manchester United sem er aðeins 161 sentímetri á hæð.

Bournemouth er með flesta enska leikmenn í sínum leikmannahópi eða 64 prósent en næst þeim koma Southampton, Cardiff City og Burnley. Liverpool er með flesta enska leikmann af stóru klúbbunum eða 10 sem gerir 34,5 prósent leikmannahópsins. Á eftir þeim koma Tottenham, Manchester United, Chelsea and Manchester City. Arsenal er aftur á móti á botninum með aðeins fjóra enska leikmenn í leikmannahópi sínum.

Manchester United er með reyndasta liðið er saman hafa leikmenn liðsisn spilað 3009 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea, Liverpool, Everton og Burnley fylgja eftir í næstu sætum þegar kemur að reynslu. Leikmannahópur United er einnig með flest mörk eða 416.

Leikmenn nýliða Wolves hafa aftur á móti aðeins leikið 232 leiki samanlagt en hinir nýliðarnir, Fulham og Cardiff, eru líka í neðstu sætunum á þeim lista.

Hér má finna meira um þennan samanburð hjá Sky Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×