Enski boltinn

Óli lofar sóknarleik í kvöld: „Verðum að sækja og ætlum að herja á þá“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fagna Valsmenn í kvöld?
Fagna Valsmenn í kvöld? vísir/anton
Valsmenn spila seinni leik sinn gegn Sheriff frá Moldóvu á Hlíðarenda í kvöld í einvígi liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar. Valsmenn töpuðu 1-0 ytra í fyrri leiknum.

Valur spilaði góðan leik í Moldóvu fyrir viku en fékk á sig mark undir lok leiksins sem réð úrslitum. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, sagði Valsmenn mögulega breyta um leikskipulag í kvöld.

„Úti spiluðum við meiri varnarleik heldur en oft áður. Við erum 1-0 undir svo við verðum að sækja og ætlum að herja á þá,“ sagði Ólafur við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur á opinni æfingu Vals í gær.

„Leikurinn úti var í jafnvægi, við erum ekkert síðri en þetta lið og með möguleika til jafns við þá. Það datt inn hjá þeim eitt mark.“

Vinni Valur einvígið kemst liðið í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Ljóst er hver andstæðingurinn verður þar, lið Qarabag frá Aserbaísjan þar sem Hannes Þór Halldórsson stendur á milli stanganna.

„Við þurfum allir að eiga okkar besta leik,“ sagði Birkir Már Sævarsson, varnarmaður Vals og íslenska landsliðsins. „Þetta er gott lið en við erum líka með gott lið.“

„Það væri ótrúlega gaman bara að komast áfram og extra skemmtilegt að fá að mæta Hannesi og mögulega slá hann út.“

Leikur Vals og Sheriff hefst klukkan 19:00 í kvöld á Origovellinum, Hlíðarenda. Hann verður einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×