Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Grindavík 1-1 │ Jafnt í fallslagnum

Einar Sigurvinsson á JÁVERK vellinum á Selfossi skrifar
Grindavíkurkonur fagna fyrr í sumar.
Grindavíkurkonur fagna fyrr í sumar. mynd/umfg

Selfoss og Grindavík skildu jöfn þegar liðin mættust í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í dag. Leikurinn fór fram á Selfossi og lauk 1-1.

Selfoss byrjaði leikinn leikinn af krafti og strax á 8. mínútu leiksins mátti litlu muna að heimakonur næðu forystunni. Þá átti Halla Helgadóttir góðan sprett inn á teig Grindavíkur, kom boltanum fyrir markið en Brynhildur Brá náði ekki að pota boltanum í netið.

Í fyrri hálfleik voru yfirburðir heimakvenna miklir og gekk Grindavík illa að vinna sig inn í leikinn. Á 36. mínútu náði Selfoss að komast yfir í leiknum. Magdalena kom boltanum þá fyrir markið úr aukaspyrna af miðjum vellinum. Þar barst boltinn til Allyson Haran sem kom honum markið og heimakonur komnar með verskuldaða forystu.

Grindavík kom sterkari inn í síðari hálfleik og skapa hættulega færi þess á 72. mínútu. Þá barst boltinn barst til Lindu Eshun á góðum stað eftir aukaspyrnu, en hún náði ekki til hans.

Jöfnunarmark Grindavíkur kom síðan á 80. mínútu eftir langt innkast. Boltinn barst til Rio Hardy sem setti hann í netið.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 1-1.

Af hverju skildu liðin jöfn?
Selfoss var betra liðið í fyrri hálfleik og Grindavík betra í þeim síðari. Yfirburðir Selfyssinga voru gríðarleg í fyrri hálfleik og geta heimamenn nagað sig í handabökin yfir að hafa ekki gert hreinlega út um leikinn fyrir hálfleik.

Grindavík á þó hrós skilið fyrir góðan síðari hálfleik og að lokum er lítið annað hægt að segja að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit fyrir bæði lið.

Hverjar stóðu upp úr?
Allyson Paige Haran, markaskorari Selfoss var öflug fram á við og sífellt að ógna. Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir var einnig öflug og en hefði eflaust á góðum degi klárað eitthvað af þeim færum sem hún náði að koma sér í.

Viviane Holzel Domingues í marki Grindavíkur átti stórleik, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar Selfoss var með yfirhöndina í leiknum. Linda Eshun var einnig gríðarlega öflug í vörninni.

Hvað gekk illa?
Selfoss liðinu gekk illa að klára færin á meðan Grindavík gekk illa að skapa sér þau. Selfoss hefði vel getað farið með meiri forystu inn í hálfleikinn hefði liðið nýtt færin sín. Hins vegar gekk Grindavík illa að skapa sér hættuleg færi, þrátt fyrir mikla yfirburði í síðari hálfleik.

Hvað gerist næst?
Selfoss mætir Þór/KA á Akureyri í 15. umferð deildarinnar og Grindavík mætir í Fossvoginn þar sem HK/Víkingur tekur á móti þeim.

Ray: Við áttum klárlega skilið þetta stig

Ray ásamt aðstoðarmanni sínum Nihad Hasecic. Facebooksíða Grindavíkur

„Mér fannst við vera betra liðið, sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Ray Anthony Jónsson, þjálfari Grindavíkur í leikslok.

„Mér fannst þetta vera 50/50 leikur í fyrri hálfleik og að við höfum fengið þetta mark á okkur, ég veit ekki hvað skal segja. En við áttum klárlega skilið þetta stig og jafnvel eitthvað aðeins meira.

Grindavíkurliðinu hefur gengið illa upp á síðkastið en fyrir leikinn í dag hafði liðið tapað síðustu fimm leikjum í röð. Ray segist sjá framfarir á sínu liði.

„Við höfum verið að stíga upp. Mér finnst eins og stelpurnar vilji miklu meira en taflan sýnir. Við þurfum bara að vinna meira og vilja vinna leiki.“

Grindavík situr enn í 9. sæti deildarinnar, nú tveimur stigum frá öruggu sæti. Ray hefur þó litlar áhyggjur að sínu liði.

„Þetta er erfitt en þær vita alveg hvað þær eru góðar. Þær munu fara að vinna leiki. Við tökum einn leik í einu. Í dag áttum við klárlega skilið stigið og jafnvel eitthvað aðeins meira,“ sagði Ray Anthony Jónsson að lokum.

Alfreð: Þetta er bara svona, þetta er fótboltinn

Alfreð Jóhannsson er þjálfari kvennaliðs Selfoss. UMFS

„Við áttum fyrri hálfleikinn, á meðan þær áttu dálítið seinni hálfleikinn. Mörk breyta leikjum og við getað sett tvö til þrjú mörk í fyrri hálfleik,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson þjálfari Selfoss í leikslok.

„Við leyfðum þeim aðeins að komast inn í leikinn í seinni hálfleik og þær bara gengu á lagið og skoruðu þetta mark. En fyrir utan það voru þær ekki að skapa mikið.“

Alfreð segir jöfnunarmark Grindavíkur hafa verið svekkjandi, það hafi vel verið hægt að koma í veg fyrir.

„Að fá svona aulamark á okkur úr svona löngu innkasti. Við vorum búin að fara vel yfir þetta. Þetta er bara svona, þetta er fótboltinn.“

Eftir leikinn í dag er Selfoss í 5. sæti deildarinnar, sex stigum frá fallsæti.

„Það er Þór/KA næst. Við þurfum bara að gera allt það sem við getum til þess að fá þrjú stig þar,“ sagði Alfreð að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.