Fótbolti

Zenit skoraði átta eftir að hafa verið fjórum mörkum undir

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Einu af átta mörkum Zenit fagnað í gærkvöldi
Einu af átta mörkum Zenit fagnað í gærkvöldi vísir/getty
Það var mikið um dramatík víða í Evrópu í gærkvöldi þegar næstsíðasta umferð forkeppni Evrópudeildarinnar fór fram.

Íslandsmeistarar Vals eru úr leik eftir að hafa fallið út með naumindum fyrir Sheriff frá Moldavíu en Hjörtur Hermannsson og Viðar Örn Kjartansson komust áfram með sínum liðum. Sama má segja um Jóhann Berg Guðmundsson sem hjálpaði Burnley að komast áfram eftir framlengdan leik.

Mesta dramatíkin var hins vegar í Rússlandi þar sem rússneska liðið Zenit frá Pétursborg fékk Hvít-Rússana í Dinamo Minsk í heimsókn.

Fyrri leik liðanna lauk með 4-0 sigri Minsk í Hvíta-Rússlandi og þurftu Rússarnir því að vinna upp fjögurra marka forskot í síðari leiknum.

Það blés ekki byrlega fyrir Zenit því á 72.mínútu fékk Leandro Paredes að líta rauða spjaldið en þá var staðan 2-0 fyrir Zenit og virtust þeir vera á útleið. Einum færri tókst þeim hins vegar að skora tvö mörk á síðasta stundarfjórðungi leiksins og var það Artem Dzyuba sem sá um það.

Staðan því 4-0 eftir venjulegan leiktíma, einvígið samtals 4-4, og þurfti því að framlengja.

Framlengingin lyginni líkustFramlengingin var ekki síður dramatísk. Gestirnir skoruðu fyrsta markið þar og voru þar með komnir með útivallarmark sem oft reynist mikilvægt. Staðan 4-1 í leikhléi framlengingar og ljóst að Zenit þyrfti að skora minnst tvö mörk í seinni hálfleik framlengingarinnar.

Á 109.mínútu kom Sebastian Driussi Zenit í 5-1 og skömmu síðar fullkomnaði Dzyuba þrennu sína og kom Zenit aftur í forystu í einvíginu.

Á lokamínútu framlengingarinnar varð aftur jafnt í liðum þegar Maksim Shvetsov í liði Minsk fékk að líta rauða spjaldið og í kjölfarið skoraði Robert Mak tvö mörk fyrir Zenit í uppbótartíma framlengingarinnar.

Lokatölur 8-1 í algjörlega ótrúlegum leik og lauk einvíginu því 8-5 fyrir Zenit sem mætir Molde í lokaumferð forkeppninnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×