Erlent

Hersýningu Trump frestað til næsta árs

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald og Melania Trump að fylgjast með hersýningu á Bastilludaginn í París í fyrra. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, er þarna líka.
Donald og Melania Trump að fylgjast með hersýningu á Bastilludaginn í París í fyrra. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, er þarna líka. Vísir/GETTY
Hersýningu sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór fram á að halda skyldi í Washington DC hefur verið frestað frá nóvember til næsta árs hið minnsta. Þegar Trump var í Frakklandi á Bastilludaginn í fyrra varð hann vitni af hersýningu franska hersins og í kjölfarið sagði hann að Bandaríkin gætu gert betri og flottari sýningu. Engin hefð er fyrir hersýningum sem þessum í Bandaríkjunum.

Síðasta hersýning Bandaríkjanna var árið 1991 í kjölfar þess að herinn rak her Saddam Hussein úr Kúveit.

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna birtu í gær yfirlit yfir hersýninguna þar sem í ljós kom að hún verður rúmlega þrefalt dýrari en hún átti upprunalega að kosta. Nú er áætlað að hún muni kosta um 92 milljónir dala.

Þegar beiðni Hvíta hússins var opinberuð í febrúar áætlaði herinn að sýningin myndi kosta tíu til 30 milljónir dala.

Gagnrýnendur segja hersýningu vera sóun á opinberu fé og hafa þingmenn sagt að slíkar sýningar eigi sér nánast eingöngu stað í einræðisríkjum. Þá hafa borgaryfirvöld Washington DC einnig sagst vera andsnúin hersýningu þar.

Samkvæmt umfjöllun BBC hafa fjölmiðlar í Bandaríkjunum einnig bent á að Trump stöðvaði sameiginlegar æfingar herafla Bandaríkjanna og Suður-Kóreu í kjölfar fundar hans og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Þá sagði Trump að það myndi spara ríkinu verulegar fjárhæðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×