Erlent

Minnst 164 látnir vegna flóða í Indlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Rúmlega 150 þúsund manns hafa misst heimili sín.
Rúmlega 150 þúsund manns hafa misst heimili sín. Vísir/AP
Minnst 164 hafa dáið í gífurlegum flóðum í Kerala-héraði í Indlandi. Flóðin má rekja til gífurlegrar rigningar en ástandið hefur ekki verið svo slæmt í Kerala í áratugi og enn er frekari rigningu spáð á næstu dögum. Þúsundir hafa króast af vegna vatnsins og standa umfangsmiklar björgunaraðgerðir yfir.

Embættismenn sögðu AFP fréttaveitunni að minnst 164 hefðu dáið og þar af hundrað á síðustu 36 klukkustundum. Hins vegar gefa fregnir af svæðinu verri mynd af ástandinu. Talið er að fjöldi látinna gæti hækkað verulega og er ástandið sagt vera einstaklega alvarlegt.



Kerala, sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, verður fyrir miklum rigningum á hverju ári. Rigningarnar hafa þó ekki valdið svo miklum skaða í nærri því heila öld. Rúmlega 150 þúsund manns hafa misst heimili sín. Þá er talið að um tíu þúsund kílómetrar af vegum séu ónýtir. Erfiðlega hefur gengið að koma fólki til aðstoðar og hafa margir íbúar héraðsins kallað eftir hjálp á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×