Innlent

Júlíus Vífill ákærður fyrir peningaþvætti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti. Kjarninn greindi frá þessu í morgun og í framhaldinu tjáði Júlíus Vífill sig lítillega um málið á Facebook.



„Það kom á óvart og eru mér vonbrigði. Ég tel engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi,“ sagði Júlíus Vífill.



Við sama tilefni segir Júlíus að héraðssaksóknari hafi komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir á hendur honum frá systkinum um að hafa skotið undan peningum foreldra þeirra heitinna eigi ekki við rök að styðjast.



„Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn.“

Ákæran ekki enn birt

Fréttastofa leitaðist eftir því að fá afrit af ákærunni hjá embætti héraðssaksóknara. Þar fengust þau svör að hún hefði enn ekki verið formlega birt. Ákæran hefði verið send héraðsdómi í lok júní en í framhaldinu er tímasetning þingfestingar ákveðin og ákæran birt sakborningi.



Tafir hafi hins vegar orðið á því hjá dómstólnum en ákæra fæst ekki afhent fyrr en þremur dögum eftir að sakborningur hefur fengið hana birta.



Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagðist aðeins geta staðfest að Júlíus Vífill hefði verið ákærður fyrir peningaþvætti. Brotin varða allt að sex ára fangelsi.



Júlíus Vífill er fyrsti Íslendingurinn sem getið var um í Panamaskjölunum sem sætir ákæru.






Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×