Íslenski boltinn

Tveir nákvæmlega eins bikarúrslitaleikir í fyrsta sinn í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigríður Lára Garðarsdóttir og Sóley Guðmundsdóttir lyfta bikarnum í fyrra en bæði ÍBV liðin unnu bikarkeppni KSÍ í fyrra.
Sigríður Lára Garðarsdóttir og Sóley Guðmundsdóttir lyfta bikarnum í fyrra en bæði ÍBV liðin unnu bikarkeppni KSÍ í fyrra. vísir/ernir
Mjólkurbikarinn í ár er þegar orðinn sögulegur eftir að ljóst varð að nágrannar úr Kópavogi og Garðabæ mætast hjá bæði körlum og konum.

Breiðablik og Stjarnan tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleik karla í vikunni og í kvöld mætast sömu félög í bikaúrslitaleik kvenna.

Úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna fer fram á Laugardalsvellinum í kvöld, hefst klukkan 19.15 og er einnig sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þetta er í fyrsta sinn síðan að bikarkeppni kvenna var tekin upp árið 1981 að sömu félög mætast í báðum úrslitaleikjunum.

Breiðablik og Stjarnan eru fimmtánda og sextánda félagið sem ná báðum meistaraflokssliðum sínum í bikaúrslitaleikinn en það gerðist síðast í fyrra.

ÍBV varð þá bikarmeistari hjá báðum kynjum en það hafði aðeins gerst fimm sinnum áður þar af bara einu sinni á árunum 2000 til 2016 (KR 2008).

Hin félögin sem hafa eignast tvö bikarmeistaralið á sama ári eru Valur (1988 og 1990), ÍA (1993) og KR (1999 og 2008).

Nú fá Blika- og Stjörnufólk tækifæri til að bætast í þann hóp. Bæði félög hafa áður verið með báða meistaraflokka í úrslitum, Blikar 2009 og Stjarnan 2012, en fengu þá eitt gull og eitt silfur.

Félög með báða meistaraflokka í bikarúrslitum fótboltans:

1. ÍA 1983 (gull og silfur)

2. ÍA 1984 (gull og silfur)

3. Valur 1988 (tvö gull)

4. Valur 1990 (tvö gull)

5. ÍA 1993 (tvö gull)

6. KR 1994 (gull og silfur)

7. KR 1995 (gull og silfur)

8. KR 1999 (tvö gull)

9. KR 2008 (tvö gull)

10. Breiðablik 2009 (gull og silfur)

11. KR 2011 (gull og silfur)

12. Stjarnan 2012 (gull og silfur)

13. ÍBV 2016 (tvö silfur)

14. ÍBV 2017 (tvö gull)

15. Stjarnan 2018 (???)

16. Breiðablik 2018 (???)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×