Innlent

„Ég trúi ekki öðru en að eigendur hennar sakni hennar mikið“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Kötturinn, sem hefur fengið nafnið Lína, hefur þurfti að fara í erfiða aðgerð eftir að hún fannst en er nú á góðum batavegi.
Kötturinn, sem hefur fengið nafnið Lína, hefur þurfti að fara í erfiða aðgerð eftir að hún fannst en er nú á góðum batavegi. Mynd/Ólöf Ólafsdóttir

Kötturinn Lína fannst stórslösuð fyrr í sumar en konan sem hefur hugsað um hana síðustu vikur segir að hún hafi augljóslega áður verið heimilisköttur. Hún var þó hvorki örmerkt né með ól og auglýsingar eftir eiganda hennar á Facebook skilaði ekki árangri. Lína er nafnið sem henni var gefið eftir að hún fannst.

„Hún var með þessi ljótu sár og mjög horuð,“ segir Ólöf Ólafsdóttir um ástand Línu þegar hún náðist. Ólöf tók Línu að sér í tímabundið fóstur fyrir Villikettir dýraverndunarfélag.

Missti sjálf kött á árinu

„Ég var að fylgjast með þeim á Facebook. Kötturinn minn dó í febrúar og ég var ekki alveg tilbúin til þess að fá mér annan kött en langaði samt að gera eitthvað. Ég skrái mig hjá þeim og svo er haft samband við mig og ég beðin um að taka Línu að mér og mér sagt að hún væri lasin. Ég var í góðu fríi í sumar þannig að ég ákvað að slá til og sjá hvernig þetta yrði. “

Ólöf Ólafsdóttir segir allt of algengt að fólk merki ekki kettina sína. Úr einkasafni/Ólöf Ólafsdóttir

Ólöf hefur verið með Línu hjá sér síðan í júlí. Kona í Reykjavík rakst fyrst á Línu við Álfheimakjarnann þann 7. júní og lét vita af henni í Facebook hópnum Kattavaktin. Þar sagði hún að kötturinn væri stórslasaður og spurði hvort einhver kannaðist við hann. Konunni tókst ekki að taka upp Línu til þess að fara með hana til aðhlynningar.

Þann 22 júní birti önnur kona svo mynd af Línu, þá hafði hún rambað inn á heimili hennar í Álfheimum og var nú komin í búr. Lína var þá mjög illa farin og svöng en alveg ómerkt. Þessi auglýsing hafði heldur ekki árangur því enginn kannaðist við köttinn og í kjölfarið fór hann til Villikatta.

Blíður og góður heimilisköttur

„Villikettir komu henni til læknis og þar var gert að sárunum og hún fékk sýklalyf.  Hún var fyrst í Kristukoti en hún var of lasin til að vera þar. Þá fór hún til Hrefnu Hlöðversdóttur og hjá henni  kom í ljós að hún var mjög aum yfir kviðinn og við aðra læknisskoðun kom í ljós að hún var með ígerð í legi og legið var fjarlægt. Þegar hún kom til mín var hún búin að jafna sig eftir aðgerðina en ennþá með sárin tvö efst á hnakkanum og mjög horuð,“ útskýrir Ólöf.

Þetta eru myndirnar sem einstaklingar birtu af Línu þegar leitað var að eiganda hennar. Eigendur kattarins hafa ekki enn gefið sig fram. Mynd/Villikettir

„Hún er öll að koma til og líður greinilega miklu betur. Greinilega heimilisköttur sem hefur lent á einhverjum vergangi. Hún er búin að braggast mikið og hefur þyngst um tæplega tvö kíló og orðinn mikið sprækari kisa en þegar hún kom til mín. Lína er algjör kelurófa, finnst gott að fá að kúra uppi í rúmi og er mikill karakter og svo blíð og góð.“
Ólöf hefur farið nokkrar ferðir með Línu til dýralæknis til að fá sýklalyf, áburð og umbúðir. Hún vonar að sárin hennar grói fljótlega svo að hún geti komist á gott varanlegt heimili.

„Hún hvæsir og lætur vel í sér heyra þegar henni mislíkar eitthvað, eins og hjá lækninum í gær, en hún er fljót að fyrirgefa og farin að mala um leið og hún fær smá athygli. Þetta er yndisleg kisa og ég trúi ekki öðru en að eigendur hennar sakni hennar mikið.“

Lína losnar vonandi við kragann sinn í næstu viku. Mynd/Ólöf Ólafsdóttir

Óeigingjarnt starf sjálfboðaliða

Þó að Lína hafi náð miklum bata síðan hún fannst í júní er hún ekki alveg laus við ferðirnar á dýraspítalann.

„Við aðra heimsóknina voru tennurnar skoðaðar og kom í ljós að báðar vígtennurnar í efri góm eru brotnar og þarf sennilega að taka þær báðar. Svo hún er ekki alveg laus við læknisheimsóknir greyið litla. Hún á tíma í næstu viku og þá vonandi fær hún að fara heim án þess að vera með þennan kraga á sér.“

Töluverður lækniskostnaður getur fylgt köttum sem finnast slasaðir en félagið Villikettir sér um að greiða þann kostnað ef eigendur finnast ekki. Ólöf hvetur fólk til þess að merkja og örmerkja kettina sína, líka innikisur því þær eiga það til að sleppa út. 

„Allur útlagður kostnaður er greiddur af Villiköttum og það eru margir kettir sem þau samtök eru búin að hjálpa og mikið og óeigingjarnt sjálfboðaliða starf það að baki. Mér finnst mikilvægt að hugsa vel um þessi dýr, það er allt of mikið af köttum þarna úti sem eru ekki villikettir heldur bara heimiliskettir,“ segir Ólöf að lokum.  v

Lína hefur náð góðum bata síðan hún fannst fyrr í sumar. Mynd/Ólöf Ólafsdóttir

Tugir kettlinga í heimilisleit

„Hún er með króníska sýkingu í þessum sárum sem koma í veg fyrir almennilegan gróanda. Hún hefur verið endurtekið hjá dýralækni og þeirri meðferð er ekki enn lokið,“ segir Hallbera Guðmundsdóttir sjálfboðaliði hjá Villiköttum í samtali við Vísi. Hún segir að ekki allir geri sér grein fyrir því hversu hár lækniskostnaðurinn getur verið fyrir þessa ketti.

„Lína hefur verið í Garðabæ og við erum mjög þakklát fyrir að þau gefa okkur góðan afslátt en þetta eru samt háar upphæðir þegar allt safnast saman.“

Hallbera bendir á að þeir sem vilja taka að sér kött eða kettling geta sett sig í samband við félagið í gegnum Facebook.

„Við erum með marga tugi af kettlingum núna sem hafa fundist úti og viljum alltaf minna á hvað það er mikilvægt að taka dýrin sín úr sambandi. Einnig eru margar góðar fullorðnar kisur sem vantar heimili. Það er hægt að senda inn umsókn um að ættleiða kisu á Facebook-síðu Villikatta, fyrir kettlinga þarf að greiða 15.000 krónur við afhendingu og fæst fyrir það sem inneign fyrir geldingu, örmerkingu og hluta af bólusetningum sem kettlingurinn fer í þegar hann hefur aldur til.“

Á síðunni Hlaupastyrkur er hægt að heita á hlaupara sem safna áheitum fyrir félagið. 

Villikettir auglýsa reglulega ketti og kettlinga í leit að heimili. Facebook/Villikettir

Um Dýraverndunarfélgið Villikettir

Megin tilgangur félagsins er að láta sig varða velferð útigangs- og villikatta á Íslandi og er félagið rekið í sjálfboðavinnu dýravina. Félagið Villikettir sér um að fanga og gelda villiketti samkvæmt TNR aðferðinni og er þeim þá oftast sleppt aftur eftir geldinguna. Þær sem gætu hugsanlega orðið heimiliskisur dvelja hjá Villiköttum þangað til þær fá varanlegt heimili.

Með hjálp sjálfboðaliða eru skipulagðar fæðugjafir, skjól byggð og kettlingum bjargað inn svo hægt sé að finna handa þeim heimili.  Í ár leggur félagið áherslu á að safna peningum fyrir kaupum á húsnæði. Villikettir eiga ekki sitt eigið húsnæði eins og staðan er núna en þörfin fyrir húsnæði undir starfsemina hefur vaxið mikið síðustu tvö ár.


Tengdar fréttir

Móðirin hafnaði þrífættum kettlingi

Félagið Villikettir leitar reglulega fósturheimila fyrir kettlingafullar villilæður. Þeim er komið fyrir hjá fósturfjölskyldum á meðan kettlingarnir komast á legg og geta farið á ný heimili.

Kettlingar vanræktir á sveitabæ

Fjórum kettlingum sem bjuggu við vanrækslu á sveitabæ var í gær komið í hendur samtakanna Villikatta. Sjálfboðaliði hjá samtökunum segir of algengt að bændur sinni ekki köttunum sínum og láti ekki gelda þá.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.