Tónlist

Arnar Úlfur gefur út sólóplötu: „Tími ekki að gera þetta í gríni“

Bergþór Másson skrifar
Arnar Freyr Frostason, eða Arnar Úlfur, gaf út plötuna Hasarlífstíll á dögunum.
Arnar Freyr Frostason, eða Arnar Úlfur, gaf út plötuna Hasarlífstíll á dögunum. vísir/auðunn
Arnar Freyr Frostason, meðlimur rapphljómsveitarinn Úlfur Úlfur, gaf út sína fyrstu sólóplötu á dögunum undir listamannanafninu Arnar Úlfur. Platan ber heitið Hasarlífsstíll og eru gestir hennar engin önnur en: Salka Sól, Helgi Sæmundur (Úlfur Úlfur), Kött Grá Pjé og Kjartan Lauritzen. Platan er að mestu útsett af Birni Vali, en Sin Fang og Redd Lights komu einnig að pródúseringu.

Arnar byrjaði að vinna í plötunni eftir að Helgi Sæmundur, samstarfsmaður hans í Úlfur Úlfur til margra ára, fór á fullt í að semja tónlistina fyrir Stellu Blómkvist, þættir sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans í fyrra. Þá fór Arnar í fyrsta skipti að vinna alvarlega að tónlist með einhverjum öðrum en Helga.

Grín sem varð alvarlegt

Hljómsveitin Úlfur Úlfur var stofnuð árið 2010 og hefur gefið út þrjár plötur í fullri lengd og hefur hún verið ein vinsælasta hljómsveit landsins í mörg ár. Í samtali við Vísi segir Arnar þær allar hafa verið virkilega útpældar og vel pródúseraðar. Á sóloplötu sinni hafi honum hinsvegar langað til að fá „útrás fyrir kjaftæðinu.“

„Mér fannst bara rökrétt að taka þetta skref. Prófa að vinna með öðrum pródúserum og sjá hvert það myndi taka mig. Þetta byrjaði í hálfgerðu gríni, þetta átti bara að vera „fyrir götuna“ eins og maður segir. Síðan fór maður að taka grínið svoldið alvarlega. Maður tímir ekki að gera þetta í gríni, grín lifir svo stutt.“

Fékk loksins að vinna með kærustunni

Arnar segist hafa unnið með fólki sem hann hefur lengi viljað vinna með, eins og til dæmis kærustunni sinni Sölku Sól, sem hefur gert garðinn frægan í bæði Amabadama og Reykjavíkurdætrum. Salka Sól er með gestavers á laginu Falafel og vakti framkoma hennar mikla athygli á samfélagsmiðlum þegar platan kom út.

„Við höfum lengi verið að plana samstarf en núna fannst mér bara rétt að gefa út einhvern „dörra“ saman. Ég var næstum því jafn spenntur fyrir því að sýna heiminum versið hennar og að gefa plötuna út.“ segir Arnar.

Hafa ekkert að sanna

Úlfur Úlfur er nú átta ára gömul hljómsveit og hefur rapplandslag Íslands breyst töluvert síðan hljómsveitin var stofnuð. Arnar og Helgi byrjuðu að geta lifað á tónlistinni eftir útgáfu lagsins Tarantúlur, „þá breyttist allt hins betra“ segir Arnar, og náði sveitin hápunkti í vinsældum þegar Brennum Allt kom út, „þar peakuðum við á einhvern yndislegan hátt.“

„Einhverra hluta vegna þá hefur verið allt í lagi þó við gefum ekki lag út í ár. Kannski er það líka bara afþví við erum búnir að vera að þessu svo lengi. Við erum komnir á þann stað að við getum leyft okkur að vera mjög rólegir en boltinn rúllar bara. Við erum búnir að sanna okkur. Fólk sem hefur séð okkur á tónleikum veit að við getum spilað á tónleikum. Það þarf að hafa voða litlar áhyggjur af okkur.“

Finnur fyrir kynslóðabili

Ef horft er til baka á sögu rapptónlistar hafa erjur og ósætti á milli kynslóða alltaf verið til staðar og vinsælustu rappararnir ávallt verið í yngri kantinum. Sérstaklega hefur það verið í umræðu vestanhafs upp á síðkastið, vegna rappara eins og Lil Yacthy og Lil Pump, sem hafna stöðlum settum af forverum sínum, lifa í nútíðinni, og bera litla virðingu fyrir fortíðinni.

Arnar segist finna fyrir þessu kynslóðabili hérlendis en segir það ekkert endilega vera neikvætt. „Ég er mjög meðvitaður um eigið umhverfi. Ég veit af öllum og ég tjékka á öllum.“

Nýlega settist rapparinn J. Cole, sem er þekktur fyrir innihaldsríka texta og hefðbundin rappstíl, niður með hinum 18 ára Lil Pump, sem rappar ítrekað um sitt eigið kærulausa líferni. Þeir spjölluðu saman í klukkutíma með það að markmiði að reyna að brúa bilið milli kynslóðanna og finna sameiginlegan grundvöll.

„Það sem unglingarnir eru að gera er að virka. Þetta eru hlutir sem ég reyni ekki einu sinni að gera. J. Cole myndi ekki reyna að gera Lil Pump lög. Ég gæti reynt það og sumir á mínum aldri reyna það, en það færi mér ekki vel. Ég hef ekki þessa sögu að segja, það væri hallærislegt.“

„Þetta er ekki ritskoðun“

Munnshöfnuður og umfjöllunarefni rappara hafa verið mikið í umræðunni bæði hérlendis og vestanhafs á síðustu misserum. Arnar segir að rapparar þurfa að vanda sig hvað þeir eru að segja, hugsa aðeins út í það hverjir séu að hlusta, og hvaða áhrif hlutirnir hafa.

„Þegar fólk gagnrýnir hlutina sem er fjallað um þá bara margir að segja að rapparar eigi ekki að ritskoða sjálfan sig en mér finnst oft spurningin ekki vera að við erum ekki endilega að ritskoða okkur, stundum á bara að vanda sig betur hvað þú segir. Það voru hlutir á þessari plötu sem ég bokstaflega hætti við á lokametrunum og það var sagt við mig oftar en einu sinni: „Ekki vera að ritskoða þig,“ en þetta er ekki ritskoðun, þetta eru bara ekki hlutir sem mig langar að segja og standa á bakvið. Sumt bara er óþarfi að segja. Afhverju? Það er bara smá þannig“ segir hann.

Ekkert mál að eldast

Arnar stefnir á halda áfram að þróa sólóferilinn og kemur meðal annars fram á Airwaves, bæði með hljómsveitinni Úlfur Úlfur og sem Arnar Úlfur.

Aðspurður í lok samtals við blaðamann hvernig lífið sé og hvort hann sé hamingjusamur, svarar Arnar glaðlega:

„Ég er sæll og glaður. Ég held það heyrist á plötunni. Það er einhver djöfulsins sátt á plötunni. Ég varð þrítugur í ár og ég hélt það yrði erfitt, en þvert á móti, ég varð bara miklu chillaðari.“

Hægt er að hlusta á plötuna Hasarlífsstíl á Spotify hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×