Lífið

Forseti Indónesíu brunar um borg og bí á bifhjóli

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Joko Widodo, forseti Indónesíu.
Joko Widodo, forseti Indónesíu. Vísir/Getty

Forseti Indónesíu, Joko Widodo, hefur heldur betur vakið lukku á samfélagsmiðlum eftir að myndskeiði sem sýnt var á opnunarhátíð hinna árlegu Asíuleika, sem nú eru haldnir í 18. skipti, var deilt á internetinu. Í myndskeiðinu sést Widodo bruna um götur Jakarta á mótorhjóli.

Myndbandið sýnir hinn 57 ára gamla forseta á leið með bifreið sinni á umrædda opnunarhátíð. Hann verður fyrir því óhappi að lenda í mikilli og hægfara umferð, en Jakarta, höfuðborg Indónesíu, er einmitt þekkt fyrir mikinn umferðarþunga.

Widodo deyr þó ekki ráðalaus og skellir sér á mótorhjól og brunar yfir, undir og á milli ýmissa hindrana sem á vegi hans verða. Myndbandið endar síðan á því að Widodo mætir á aðalleikvang Jakarta og fær sér sæti þar sem opnunarhátíðin er í þann mund að hefjast.

Myndbandið hefur vakið gríðarlega lukku í netheimum og nálgast óðfluga milljón áhorf á YouTube. Þá hefur myndbandið farið eins og eldur í sinu um Twitter, og myllumerkin #proudtobeindonesian og #stuntman fóru á flug á samfélagsmiðlinum.

Sitt sýnist þó hverjum um uppátæki forsetans, en pólitískir andstæðingar hans hafa sakað hann um að reyna með þessu að fegra ímynd sína gagnvart ungum kjósendum og beina þannig athyglinni frá þeim vandamálum sem Indónesía glímir við um þessar mundir.

Myndskeiðið má sjá hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.