Erlent

Svíþjóð fær nýjan hæsta tind

Atli Ísleifsson skrifar
Báðir tindar Kebnekaise eru nú um 2.097 metra háir.
Báðir tindar Kebnekaise eru nú um 2.097 metra háir. Vísir/Getty

Hitabylgjan sem herjað hefur á Svíþjóð síðustu vikurnar hefur nú leitt til þess að allt stefnir í að Svíþjóð muni fá nýjan hæsta tind, jafnvel strax í dag. Sænskir fjölmiðlar greina frá því að syðri tindur Kebnekaise muni þiðna og verða minni en nyrðri tindurinn í fyrsta skipti frá því að mælingar hófust árið 1880.

Vísindamenn við Stokkhólmsháskóla greindu frá því í gær að syðri tindurinn, sem þakinn er íslagi, væri einungis 20 sentimetrum hærri en nyrðri tindurinn sem ekki er þakinn ís.

Síðustu daga hefur jökullinn á syðri tindi fjallsins lækkað um fjórtán sentimetra á sólarhring og má því gera ráð fyrir að norðurtindurinn verði orðinn sá hæsti á hverri stundu.

Báðir tindar Kebnekaise eru nú um 2.097 metra háir, en syðri tindurinn hækkar vanalega á veturna, en lækkar svo yfir sumarmánuðina, vanalega um einn metra. Vegna hins mikla hita hefur syðri tindurinn hins vegar lækkað mun meira en í meðalári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.