Erlent

Svíþjóð fær nýjan hæsta tind

Atli Ísleifsson skrifar
Báðir tindar Kebnekaise eru nú um 2.097 metra háir.
Báðir tindar Kebnekaise eru nú um 2.097 metra háir. Vísir/Getty
Hitabylgjan sem herjað hefur á Svíþjóð síðustu vikurnar hefur nú leitt til þess að allt stefnir í að Svíþjóð muni fá nýjan hæsta tind, jafnvel strax í dag. Sænskir fjölmiðlar greina frá því að syðri tindur Kebnekaise muni þiðna og verða minni en nyrðri tindurinn í fyrsta skipti frá því að mælingar hófust árið 1880.

Vísindamenn við Stokkhólmsháskóla greindu frá því í gær að syðri tindurinn, sem þakinn er íslagi, væri einungis 20 sentimetrum hærri en nyrðri tindurinn sem ekki er þakinn ís.

Síðustu daga hefur jökullinn á syðri tindi fjallsins lækkað um fjórtán sentimetra á sólarhring og má því gera ráð fyrir að norðurtindurinn verði orðinn sá hæsti á hverri stundu.

Báðir tindar Kebnekaise eru nú um 2.097 metra háir, en syðri tindurinn hækkar vanalega á veturna, en lækkar svo yfir sumarmánuðina, vanalega um einn metra. Vegna hins mikla hita hefur syðri tindurinn hins vegar lækkað mun meira en í meðalári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×