Innlent

Norðurland fær besta veðrið segja spárnar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Á leið úr bænum.
Á leið úr bænum. Vísir/pjetur

Heilt yfir verður hlýtt en sólar­lítið um verslunarmannahelgina og besta veðrið verður á Norðurlandi, að sögn veðurfræðings.

„Framan af er spáin þokkaleg nema á föstudaginn. Þá byrjar að rigna sunnan- og vestanlands en það verður ekki mjög hvasst,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Svo á laugardaginn rofar til á öllu landinu. Það verður hægur vindur, hlýtt og þurrt.“

Einnig má búast við smá súld suðaustanlands á laugardegi að sögn Þorsteins. Hann segir að á sunnudeginum verði gott veður framan af degi en lægð sunnan úr hafi nálgist landið. „Henni fylgir þetta venjulega. Það verður rigning síðdegis á sunnudeginum, vaxandi austanátt og þá fer að hvessa í Eyjum.“

Á norðanverðu landinu helst hins vegar þurrt á sunnudegi og þar fara hitatölur yfir 20 gráður. „Það verður fínt veður á öllu landinu fyrst í stað en síðan fer að rigna fyrir sunnan.“

Þá verður austanstrekkingur og víða rigning á mánudeginum, einkum á austanverðu landinu en áfram hlýtt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.