Norðurland fær besta veðrið segja spárnar

Heilt yfir verður hlýtt en sólarlítið um verslunarmannahelgina og besta veðrið verður á Norðurlandi, að sögn veðurfræðings.
„Framan af er spáin þokkaleg nema á föstudaginn. Þá byrjar að rigna sunnan- og vestanlands en það verður ekki mjög hvasst,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Svo á laugardaginn rofar til á öllu landinu. Það verður hægur vindur, hlýtt og þurrt.“
Einnig má búast við smá súld suðaustanlands á laugardegi að sögn Þorsteins. Hann segir að á sunnudeginum verði gott veður framan af degi en lægð sunnan úr hafi nálgist landið. „Henni fylgir þetta venjulega. Það verður rigning síðdegis á sunnudeginum, vaxandi austanátt og þá fer að hvessa í Eyjum.“
Á norðanverðu landinu helst hins vegar þurrt á sunnudegi og þar fara hitatölur yfir 20 gráður. „Það verður fínt veður á öllu landinu fyrst í stað en síðan fer að rigna fyrir sunnan.“
Þá verður austanstrekkingur og víða rigning á mánudeginum, einkum á austanverðu landinu en áfram hlýtt.