Skoðun

Lítrahelgin

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Eðlislæg andúð mín á fjöldasamkomum hefði dugað til þess að bjarga mér frá því að elta sturlaða hjörðina fyrstu helgina í ágúst í vonlausri leit að skemmtun í æðra veldi.

Mér var samt bannað það vegna þess að ég vann í sumar­afleysingum á bensínstöðvum Essó öll unglingsárin. Þessi helgi er stórvertíð og sumarfólkinu var bannað að fá frí.

Staðan hlýtur að vera svipuð hjá ÁTVR þessa daga þegar milljón lítra stórfljót eldsneytis og áfengis knýr ógurlega virkjun eymdar, ógæfu, bömmera, rafmagnað brjálæði og falska gleði.

Tryllingurinn við dæluna hófst á fimmtudeginum og stigmagnaðist þangað til allt datt í dúnalogn eftir klukkan 17 á laugardeginum. Þetta var samt stuð og manni leiddist ekki eitt augnablik.

Leiðinlegasta manngerð sem til er, kúnnarnir sem aldrei hafa rétt fyrir sér, voru meira að segja ekki óþolandi. Helst vegna þess að meirihlutinn var pöddufullur að rifja hástöfum upp leiðinlegustu lög Sálarinnar.

Örlæti fölsku söngfuglanna var jafnvel slíkt að starfsmenn á plani lentu oft á hressilegu sjússafylliríi við dæluna. Djammið eftir laugardagsvaktina varð oft ansi villt. Ekkert að því þar sem enginn tók eftir því ef maður opnaði aðeins of seint á steindauðum sunnudeginum.

Þessi helgi er samt sama merkingarleysan og frídagurinn sem hún er kennd við en það er helst verslunarfólkið sem er fast í vinnunni og missir af meintri gleði.

Sjálfsagt enginn stórskaði skeður þar sem ég stend bjargfastur í þeirri trú að það sé skemmtilegra að vinna yfir verslunarfólkshelgina en að liggja hlandblautur og áfengisdauður með landabrúsa í kuldagallavasanum í regnvotum Herjólfsdal.




Skoðun

Sjá meira


×