Erlent

Bandaríkin beita refsiaðgerðum gegn rússneskum banka

Samúel Karl Ólason skrifar
Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.
Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/Getty

Yfirvöld Bandaríkjanna hafa beitt refsiaðgerðum gegn rússneskum banka fyrir að hafa átt í viðskiptum við aðila frá Norður-Kóreu sem var á svörtum lista vegna kjarnorkuvopnaáætlunar ríkisins. Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna segir Agrosoyuz bankann hafa séð um „umfangsmikla greiðslu“ fyrir Han Jang-Su. Sá er yfirmaður stærsta erlenda banka Norður-Kóreu, sem rekinn er í Moskvu og gengur undir nafninu Foreign Trade Bank.

„Bandaríkin munu áfram framfylgja refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna og Bandaríkjanna og koma í veg fyrir fjárstreymi til Norður-Kóreu,“ sagði Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í tilkynningu.

Bandaríkjamenn kölluðu einnig eftir því að Han og öðrum yfirmanni FTB yrði vísað frá Rússlandi vegna ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Þá hefur Wall Street Journal birt frétt um að þúsundir verkamanna frá Norður-Kóreu starfi nú í Rússlandi, í trássi við ályktanir öryggisráðsins. Vitnað er í gögn Innanríkisráðuneytis Rússlands, sem blaðamenn WSJ hafa komið höndum yfir.

Rússar segja þó ekki rétt að nýjum verkamönnum hafi verið hleypt inn í landið. Þess í stað hafi verið að endurnýja atvinnuleyfi 3.500 aðila sem hafi komið til Rússlands fyrir 29. nóvember í fyrra, þegar umræddar refsiaðgerðir tóku gildi.

WSJ segir þó að minnst 700 ný atvinnuleyfi hafi verið veitt á þessu ári og mun málið vera til rannsóknar innan Sameinuðu þjóðanna.

Áætlað er að verkamenn frá Norður-Kóreu sendi um 150 til 300 milljónir dala heim frá Rússlandi á ári hverju.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.