Innlent

Rýming hafin en ekki vitað um fjölda fólks á svæðinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Skaftárhlaupi árið 2015.
Frá Skaftárhlaupi árið 2015. Vísir/Vilhelm

Rýming á svæðinu við Skaftá, þar sem hlaup er hafið, er byrjuð. Um er að ræða svæði við Langasjó, Sveinstind-Skælinga og að Hólaskjóli. Hálendishópar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg standa nú að rýmingunni. Lokað var fyrir umferð um Fjallabaksleið nyrðri um klukkan 16 í dag.



Jónas Guðmundsson hjá aðgerðastjórn Landsbjargar segir í samtali við Vísi að ekki sé vitað hversu mikið af fólki er á göngu um svæðið. Staðfest sé þó að fólk er á svæðinu.



Atburðarásin í dag hefur verið mun hraðari en búist var við en hlaupið kom undan jökli og náði fyrsta mæli skömmu eftir 13 í dag. Jónas segir hálendishópa Landsbjargar þegar hafa verið á svæðinu og voru þeir komnir niður í Hólaskjól þegar rýmingin hófst. Tuttugu manns eru nú að störfum, bæði á göngu og bílum.



„Það er bara klukkutími síðan við lögðum í þetta þannig að nú er verið að taka næstu skref,“ segir Jónas.



Hver eru næstu skref?

„Það var verið að senda SMS á alla gemsa sem eru þarna á ákveðnu svæði, mesta hættusvæðinu. Við nýttum okkur kerfi almannavarna til þess. Næsta skref er svo formleg lokun á Fjallabaksleið nyrðri.“



Uppfært klukkan 16:10:

Búið er að loka Fjallabaksleið nyrðri austan Eldgjár og við Hvamm í Skaftártungum. Þá hefur brúnni yfir Eldvatn einnig verið lokað vegna hlaupsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á korti má sjá Sveinstind og árfarvegi Skaftár, Eldvatns og Kúðafljóts. Um 80% hlaupvatnsins gæti skilað sér í hinar síðarnefndu, en þær mynda vestari kvíslina. Hlaupið náði mæli á tindinum um 13:15 í dag.Vísir

Tengdar fréttir

Ferðafólk haldi sig fjarri farvegi Skaftár

Veðurstofan tilkynnti í gær að Skaftárhlaup væri hafið og að hlaupið brytist væntanlega undan jöklinum aðfaranótt morgundagsins, það nái svo hámarki snemma á sunnudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×