Innlent

Reyna að búa til einstefnu um þjóðveginn í Eldhrauni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aðspurður vonast Ágúst til þess að ekki þurfi að rjúfa veginn til að veita vatni í gegnum hann. Mynd er úr Eldhrauni fyrr í dag.
Aðspurður vonast Ágúst til þess að ekki þurfi að rjúfa veginn til að veita vatni í gegnum hann. Mynd er úr Eldhrauni fyrr í dag. Mynd/Ágúst freyr bjartmarsson

Unnið er að opnun annarrar akreinar á þjóðvegi 1, Suðurlandsvegi um Eldhraun, sem lokað var fyrir hádegi í dag vegna vatns úr Skaftárhlaupi. Heilmikið vatn flæðir enn yfir veginn og vonast viðbragðsaðilar til þess að ekki þurfi að rjúfa hann.

„Það hefur ekkert aukist, það eru góðu fréttirnar fyrir okkur, en það lækkar hægt og við erum að veita vatninu meðfram veginum og höfum náð svolítið góðum streng,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Vík í Mýrdal.

Sjá einnig: Skemmdir á Suðurlandsvegi vegna Skaftárhlaups

Hann segir að á næsta klukkutímanum verði líklega útséð um það hvort hægt verði að hleypa umferð um aðra akrein vegarins.

„Þá getum við búið til einstefnu, það horfir í það. Næsta hálftímann eða klukkutímann munum við láta vita um framhaldið.“

Aðspurður vonast Ágúst til þess að ekki þurfi að rjúfa veginn til að veita vatni í gegnum hann.

„Ég vona innilega ekki. Það yrði stór aðgerð og það er ljósleiðari og sími þarna undir. Síðan er vatnið að renna svo mikið að vegurinn gæti þá verið lokaður í tvo til þrjá daga.“

Að sögn Ágústs eru þrír starfsmenn Vegagerðarinnar að störfum við veginn. Þá eru lögreglumenn einnig á vettvangi og hópur frá björgunarsveitunum aðstoðar við lokanir á svæðinu. Ágúst segir að vel gangi að beina umferð um Meðallandsveg, þó að vegurinn sé lélegur og umferð nokkuð þung.

„Þetta er gamall og þreyttur vegur. Hann er venjulega lítið ekinn, mjög fáfarinn vegur og mæðir mikið á, við breytum því ekki hratt.“


Tengdar fréttir

Skemmdir á Suðurlandsvegi vegna Skaftárhlaups

Suðurlandsvegi vestan við Holtsveg og Kirkjubæjarklaustur var lokað á tíunda tímanum í morgun vegna vatns úr Skaftárhlaupi sem flæðir yfir veginn. Hjáleið er opin um Meðallandsveg. Vatnamælingamaður á Veðurstofunni segir Skaftárhlaup réna hægt og erfitt að segja til um hvað flóðið vari lengi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×