Innlent

Yfir hundrað hlaupa fyrir Ágúst

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Um hundrað manns hafa ákveðið að hlaupa fyrir félaga sinn í Reykjavíkurmaraþoninu 18. ágúst en hann greindist með MND sjúkdóminn fyrir ári . Eiginkona hans segir þetta einn stærsta stuðningshópinn hingað til en markmiðið er að safna fimm milljónum króna fyrir MND félagið á Íslandi.

Þremur dögum eftir fimmtugsafmæli Ágústar Guðmundssonar körfuboltaþjálfara og athafnamanns á Akureyri greindist hann með MND sjúkdóminn. Í apríl á þessu ári hvatti hann fjölskyldu og vini til að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar MND félaginu. Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í áskorunina og í kringum hann er hópur sem heitir Hlaupum fyrir Ágúst. Guðrún Gísladóttir eiginkona hans segir stóran hóp ætla að styðja málefnið.  

„Það eru mörg hundruð manns í hópnum „Hlaupum fyrir Ágúst“ en þeir sem ætla að hlaupa eru um hundrað og vonandi verða þeir ennþá fleiri,“ segir Guðrún. 

Aðspurð segir hún að líklega sé þetta stærsti hópurinn sem hafi skráð sig hingað til.

„Ég hugsa að þetta sé stærsti hópurinn sem er kominn hingað til og þegar kemur nær hlaupinu þá á hann eftir að stækka enn meira,“ segir hún. 

Guðrún segir Ágúst taka lífinu af miklu æðruleysi þrátt fyrir mikil veikindi.

„Í dag á hann erfiðara með mál og öndun og finnur máttleysi í höndum og fótum,“ segir hún. 

Henning Henningsson félagi Ágústar er einn af þeim hundrað sem hefur nú þegar skrá sig í hlaupið.

„Það er hreint út sagt ótrúlegt hvernig Ágúst hefur tæklað þennan erfiða sjúkdóm og hvernig Guðrún hefur stutt við bakið á honum. Það er mjög auðvelt að hrífast með og taka þátt í þessu með þeim,“ segir hann. 

Nú þegar hafa safnast um þrjár milljónir króna í áheit fyrir félagið. 

„Fjölskylda og vinir Ágústar eru talsmenn hópsins og stór hluti þeirra er fyrir norðan. Þá er mikill hópur úr körfuboltahreyfingunni sem er að taka þátt í þessu líka,“ segir hann að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×