Erlent

Trump hefur í hótunum en segist vilja „HEIMSFRIГ

Kjartan Kjartansson skrifar
Digurbarkalegar yfirlýsingar Trump um Íran eru mjög í anda þeirra sem hann hefur áður látið frá sér fara.
Digurbarkalegar yfirlýsingar Trump um Íran eru mjög í anda þeirra sem hann hefur áður látið frá sér fara. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði að hætta viðskiptum við ríki sem eiga í viðskiptum við Íran á Twitter í dag. Refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Íran tóku í gildi í nótt. Trump segist fara fram á „HEIMSFRIГ.

Refsiaðgerðirnar tóku aftur gildi í kjölfar þess að Trump ákvað að segja Bandaríkin úr kjarnorkusamningnum sem heimsveldin gerðu við Íran árið 2015 fyrr á þessu ári. Enn harðari aðgerðir sem beinast gegn olíuútflutningi Írana taka gildi í nóvember að óbreyttu, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Hótanir Trump gætu aukið enn á spennuna í samskiptum Bandaríkjanna við hefðbundnar bandalagsþjóðir í Evrópu. Evrópusambandið hefur sagst ætla að halda tryggð við kjarnorkusamninginn og verja fyrirtæki sem eiga í lögmætum viðskiptum við Íran.

„Hver sem á í viðskiptum við Íran mun EKKI eiga í viðskiptum við Bandaríkin,“ tísti Trump í morgun en hann er nú í fríi í golfklúbbi sínum. Hann hefur nýtt tímann til að fara mikinn á uppáhaldssamfélagsmiðli sínum um hin ýmsu málefni.

Sagði hann að refsiaðgerðirnar gegn Írönum nú yrðu þær ströngustu sem nokkru sinni hefðu verið lagðar á.

„Ég fer fram á HEIMSFRIÐ, hvorki meira né minna!“ hrópaði forsetinn á Twitter.


Tengdar fréttir

Refsiaðgerðir gegn Íran taka gildi í nótt

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann hyggst fylgja eftir refsiaðgerðum gegn Íran, eftir að Bandaríkin drógu sig úr alþjóðlegu kjarnorkusamkomulagi í vor sem undirritað var árið 2015 en það var í stjórnartíð Baracks Obama.

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum

Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×