Fótbolti

86 prósent segja að Erik Hamrén sé ekki rétti kosturinn fyrir Ísland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik Hamrén.
Erik Hamrén. Vísir/Getty
Aftonbladet í Svíþjóð setti af stað könnun hjá sér í dag þar sem blaðið spurði lesendur sína á netinu hvort það væri rétt hjá Knattspyrnusambandi Íslands að ráða Erik Hamrén sem landsliðsþjálfara Íslands.

Könnunin kom undir frétt af því að Erik Hamrén væri hættur hjá Mamelodi Sundowns í Suður-Afríku og í framhaldinu á leiðinni til Íslands.  Lesendur gátu valið á milli þess að að Erik Hamrén sé rétti kosturinn fyrir Ísland eða að hann sé ekki rétti kosturinn fyrir Ísland.

Þegar Vísir skoðaði síðast stöðuna í þessari skoðunarkönnun sænska stórblaðsins þá höfðu yfir 14 þúsund manns greitt atkvæði og niðurstaðan er afgerandi.

86 prósent lesenda Aftonbladet segja að Erik Hamrén sé ekki rétti kosturinn fyrir Ísland.

Hamrén fær því aðeins fjórtán prósent stuðning frá löndum sínum. Það er ljóst á þessu að Erik Hamrén er ekki vinsæll í Svíþjóð eftir sjö ára starf sitt sem landsliðsþjálfari.

Hamrén þjálfaði sænska landsliðið frá 2009 til 2016. Hann kom liðinu inn á tvö Evrópumót og síðustu leikir hans með liðið voru á EM í Frakklandi sumarið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×