Skoðun
Þórir Garðarsson 
stjórnar­formaður Gray Line

Óþolandi staða fyrir ferðaþjónustuna

Þórir Garðarsson skrifar

Fyrirtæki í ferðaþjónustu búa við ósanngjarna samkeppni og undirboð sem ýmist njóta afskiptaleysis eða verndar stjórnvalda.

Umsvifamiklir seljendur gistingar á borð við Airbnb komast upp með að innheimta ekki né skila virðisaukaskatti og gistináttaskatti af þeirri sölu. Íbúðareigendur sem leigja út húsnæði til viðskiptavina Airbnb borga mjög víða 90% lægri fasteignagjöld en hótel og gistihús með sambærilega þjónustu. Sérstaklega á það við í Reykjavík, sem virðist lítið hafa sinnt því að leggja á rétt fasteignagjöld. Um allt land starfa svo erlend fyrirtæki í ferðaþjónustu sem skila engum sköttum hér á landi og eru þekkt fyrir að borga starfsfólki langt undir íslenskum töxtum.

Allir tapa

Ekki vantar opinberar stofnanir til að hafa eftirlit. Vinnumálastofnun, sýslumenn, lögregla, vegaeftirlit, tollstjóri, ríkisskattstjóri og fleiri. En þær vinna illa saman og einbeita sér einkum að löglega skráðu íslensku fyrirtækjunum, þeim sem eru með allt uppi á yfirborðinu og er miskunnarlaust lokað ef út af bregður.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu tapa. Ríki og sveitarfélög tapa. Samt gengur afar hægt hjá stjórnvöldum að hysja upp um sig brækurnar.


Það þarf að berja í borðið

Þessi staða er óþolandi fyrir alla sem starfa í ferðaþjónustu. Það er ekki nóg að ráða eftirlitsmenn til að senda bréf. Stofnanir verða að hætta að vísa ábyrgð hver á aðra. Þær verða að láta hendur standa fram úr ermum, krefja söluaðila gistingar um réttmætar skattgreiðslur, leggja rétt fasteignagjöld á íbúðir sem eru leigðar út til ferðamanna og stöðva ólöglegu starfsemina og undirboðin.

Samtök ferðaþjónustunnar þurfa að fylgja þessu fast eftir, berja í borðið og sparka mönnum af stað. Samtökin eiga ekki að gefa stjórnvöldum nein grið. Það er gjörsamlega óviðunandi að þessi skakka samkeppnisstaða sé látin viðgangast ár eftir ár.

Höfundur er stjórnar­formaður Gray LineAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.