Erlent

Dýravinir báru eld að dýragarði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Inngangur dýragarðsins.
Inngangur dýragarðsins. Google Street View
Anarkistar hafa lýst yfir ábyrgð á íkveikju sem framin var í dýragarði í Frakklandi í byrjun mánaðarins. Hvorki dýr né menn særðust í eldinum en miðasölubásar gjöreyðilögðust.

Í nafnlausri yfirlýsingu sem birtist á vefsíðu þarlends anarkistahóps segir að ákveðið hafi verið að bera eld að dýragarðinum - „því dýragarðar eru eins og fangelsi,“ líkt og það er orðað í yfirlýsingunni. 

Dýragarðarnir þykist vernda dýrin en séu aðeins leifar af hrottaskap nýlendutímans. Þá ferðuðust landkönnuðir um höfin sjö og hnepptu villt dýr í ánauð áður en þau voru gerð að sýningargripum á heimaslóðum könnuðanna.

Eldurinn kom upp í Peaugres Safari-garðinum aðfaranótt 2. ágústs síðastliðinn og var garðurinn lokaður daginn eftir meðan unnið var að uppsetningu nýrra miðasölubása. Garðurinn er rúmlega 80 hektarar að stærð og hýsir um 1150 dýr. Að jafnaði sækja 300 þúsund manns dýragarðinn á hverju ári.

Íkveikjan er enn til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×