Innlent

Kórar Íslands hækkuðu eftir endurmat hjá ráðuneyti

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Friðrik Dór var kynnir í þáttunum.
Friðrik Dór var kynnir í þáttunum. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL ÞÓR
Nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar þarf að taka mál Kóra Íslands fyrir að nýju eftir að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra féllst á endurupptökubeiðni Sagafilm vegna málsins.

Í október í fyrra hafnaði nefndin umsókn framleiðandans um endurgreiðslu þar sem þættirnir þóttu ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til að hljóta endurgreiðslu. Samkvæmt lögum er skilyrði fyrir endurgreiðslu það að hið framleidda efni sé til þess fallið að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða það stuðli að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að því standa. Matið skiptist í átta liði sem hver um sig gefur að hámarki tvö stig.

Fjögur stig þarf úr menningarhluta matsins til að hljóta endurgreiðslu. Mat nefndarinnar var að þættirnir skoruðu aðeins þrjú stig og var umsókninni því hafnað. Í desember á síðasta ári staðfesti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mat nefndarinnar og synjaði um endurgreiðslu.

Sagafilm undi því ekki og óskaði endurupptöku þar sem fyrirtækið taldi ákvörðun ráðuneytisins byggða á röngu mati og broti á jafnræðisreglu. Fallist var á endurupptökuna. Við þá skoðun hækkaði ráðuneytið matið fyrir „íslenska siði og venjur eða menningu og sjálfsmynd“ úr einu stigi í tvö. Verkefnið hlaut því fjögur stig alls og var lagt fyrir endurgreiðslunefndina að taka málið til meðferðar á ný.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×