Erlent

Ætlar ekki að svara spurningum Mueller

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Lögmenn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hafa hafntað skilyrðum Robert Mueller, sérstaks saksóknara Dómsmálaráðuneytisins, varðandi viðtal rannsakenda við forsetann. Lögmennirnir segja í bréfi til Mueller að það sé „lagalega óviðeigandi“ að yfirheyra forsetann varðandi rannsóknina sem snýr meðal annars að því hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.

Viðræður á milli Mueller og lögmanna Trump hafa staðið yfir í um átta mánuði og þykir áðurnefnt bréf gefa í skyn að viðtalið muni aldrei eiga sér stað, án þess að Trump verði stefnt.

Í viðtölum í dag sögðu þeir Rudy Giuliani og Jay Sekulow, lögmenn Trump, að Mueller ætti að binda enda á rannsókn sína. Þeir hefðu þegar svarað fjölda spurninga rannsakenda.

Mueller var gert að rannsaka afskipti yfirvalda Rússlands af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, mögulegt samstarf framboðs Trump með Rússum, hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar og aðra glæpi sem uppgötvast við rannsóknina. Hann var skipaður í embætti sérstaks saksóknara eftir að Trump viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hafa rekið James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglu Bandaríkjanna eða, vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu.

Þá hefur Trump ítrekað kallað eftir því að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, stöðvi rannsókn Mueller. Sessions sagði sig þó frá Rússarannsókninni á sínum tíma, eftir að í ljós kom að hann hafði sagt þingmönnum ósatt um samskipti sín og Sergei Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjum. Trump hefur gagnrýnt Sessions harðlega fyrir þá ákvörðun og sagt að hann hefði aldrei skipað Sessions í embætti dómsmálaráðherra ef hann hefði vitað að Sessions myndi segja sig frá rannsókninni.

Trump hefur sagt að hann sjálfur vilji ræða við Mueller en lögmenn hans hafa komið í veg fyrir það. Fjölmiðlar ytra segja Trump vissan í sinni sök um að hann gæti sannfært Mueller um að engin brot hefðu átt sér stað og fengið hann til að láta af rannsókninni.

Lögmenn forsetans óttast að rannsakendur Mueller gætu leitt Trump í gildru og óttast að hann myndi ljúga að þeim, sem er í sjálfu sér glæpur samkvæmt lögum Bandaríkjanna.

Sagður óttast um son sinn

Fjölmiðlar ytra segja Trump óttast að sonur hans, Trump yngri, hafi brotið lögin þegar hann fór á umdeildan fund með rússneskum lögmanni og öðrum í Trump turni í New York í aðdraganda kosninganna 2016. Fundurinn var skipulagður með tölvupóstum þar sem fram kom að umræddur lögmaður væri útsendari yfirvalda Rússlands og hún ætlaði að koma gögnum sem kæmu niður á Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, í hendur Trump yngri.

Sjá einnig: „Ég elska það“: Trump yngri birtir tölvupóstana

Forsetinn tjáði sig um fregnirnar á Twitter þar sem hann sagði ekkert til í þeim. Hins vegar virtist hann viðurkenna að tilgangur fundarins hefði verið að öðlast gögn um Clinton.


Tengdar fréttir

Donald Trump og Cohen í hár saman

Michael Cohen, áður lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, mun greina Robert Mueller, sérstökum saksóknara í Rússamálinu, frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi vitað af fundi Donalds Trump yngri, Jareds Kushner og Pauls Manafort með rússneska lögfræðingnum Natalíu Veselnítskaja í Trump-turninum í júní 2016 áður en fundurinn átti sér stað

Trump segir að Sessions ætti að stöðva Mueller

Jeff Sessions sagði sig frá Rússarannsókninni á sínum tíma, eftir að í ljós kom að hann hafði sagt þingmönnum ósatt um samskipti sín og Sergei Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×