Erlent

Rússar saka vesturlönd um böðulsskap í Skrípalmálinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermenn í hlífðarklæðum fjarlægja bekkinn sem Skrípalfeðginin fundust hálfmeðvitundarlaus á í mars.
Hermenn í hlífðarklæðum fjarlægja bekkinn sem Skrípalfeðginin fundust hálfmeðvitundarlaus á í mars. Vísir/EPA

Fulltrúar Rússa hjá Alþjóðaefnavopnastofnuninni saka vesturlönd um að ætla sér að vera ákærendur, dómarar og böðlar í máli rússneska fyrrverandi njósnarans Sergei Skrípal sem eitrað var fyrir á Bretlandi í vor.

Bandaríkjastjórn kynnti nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum vegna taugaeitursárásarinnar á Skrípal og dóttur hans Júlíu í bænum Salisbury í mars. Bresk stjórnvöld hafa sakað Rússa um að hafa staðið að árásinni. Bresk kona lést eftir að hún og maður hennar komust óvart í snertingu við taugaeitrið novichok í síðasta mánuði.

„Sameiginlega vinnur vestrið sem ákærandi, dómari og böðull á sama tíma í hinu svokallaða novichok-drama. Hvers vegna ætti Rússland að sanna sakleysi sitt frekar en öfugt?“ skrifaði rússneska sendinefndin við Alþjóðaefnavopnastofnunina á Twitter í dag, að því er segir í frétt Reuters.

Gengi rússnesku rúblunnar féll eftir að tilkynnt var um nýjustu umferð viðskiptaþvingana Bandaríkjanna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hlutabréf í stórum rússneskum fyrirtækjum féllu einnig í verði.

Bandaríska utanríkisráðuneytið tilkynnti um aðgerðirnar eftir að það komst að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld hefðu beitt efna- eða sýklavopn í trássi við alþjóðalög og gegn eigin borgurum.


Tengdar fréttir

Telja sig vita hver eitraði fyrir Skripal

Talið er að lögreglan á Bretlandi hafi borið kennsl á þá sem bera ábyrgð á taugaeitursárás á rússneska fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.