Erlent

Eldsneytisfrekari bílar gætu aukið losun á við heilt land

Kjartan Kjartansson skrifar
Samgöngur eru stærsta einstaka uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum. Áform Trump um að draga úr sparneytni bíla gæti því verið stærra bakslag fyrir loftslagsaðgerðir en afnám margra annarra umhverfisreglna sem hann hefur lagt til.
Samgöngur eru stærsta einstaka uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum. Áform Trump um að draga úr sparneytni bíla gæti því verið stærra bakslag fyrir loftslagsaðgerðir en afnám margra annarra umhverfisreglna sem hann hefur lagt til. Vísir/EPA
Áform ríkisstjórnar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að frysta kröfur um sparneytni fólksbíla og léttari trukka gætu aukið losun Bandaríkjanna á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum um það sem nemur heildarlosun miðlungsstórs lands á ári.

Fyrri ríkisstjórn Baracks Obama hafði samþykkt stigvaxandi útblástursreglur sem hefðu gert kröfu um að bílaframleiðendur gerðu bíla sína um það bil helmingi sparneytnari fyrir árið 2025. Tillaga Trump nú gerir ráð fyrir að kröfurnar verði frystar árið 2021.

Greining rannsóknafyrirtækisins Rhodium Group sem New York Times greinir frá gerir ráð fyrir að þessa slakari kröfur um sparneytni þýði að bandaríski bílaflotinn muni losa 321-931 milljón tonn meira af koltvísýringi til ársins 2035 en hann hefði gert með strangari reglunum.

Sú viðbótarlosun er meiri en árleg losun ríkja eins og Austurríkis, Bangladess og Grikklands á gróðurhúsalofttegundum.

Engu að síður rökstyður Umhverfisstofnun Bandaríkjanna tillöguna með því að hún hafi hverfandi áhrif á loftslag jarðar. Viðbótarmengunin muni auka styrk koltvísýrings í lofthjúpnum um 0,65 hluta úr milljón við aldamótin.

Styrkurinn var 405 hlutar af milljón að meðaltali í fyrra samkvæmt tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna og hefur ekki verið hærri í að minnsta kosti 800.000 ár. Styrkurinn verður enn hærri um aldamótin ef menn halda áfram losun sinni á gróðurhúsalofttegundum.

Búist við stríði fyrir dómstólum um örlög reglnanna

Því hefur verið spáð að tillaga Trump-stjórnarinnar muni mæta mikilli mótspyrnu og örlög hennar ráðist fyrir dómstólum. Ástæðan er ekki síst sú að með tillögunni myndi alríkisstjórnin afturkalla undanþágu sem Kaliforníuríki hefur notið um áratugaskeið til að setja sér sínar eigin losunarreglur. Fjöldi annarra bandarískra ríkja fylgja fordæmi Kaliforníu í þeim efnum.

Fulltrúar Kaliforníu og átján ríkja sem fylgja stöðlum ríkisins hafa þegar lýst því yfir að þeir ætli sér að stöðva tillöguna.

Sumir sérfræðingar hafa einnig bent á að rökstuðningur Umhverfisstofnunarinnar fyrir því að slaka á reglunum standi á brauðfótum. Á meðal þess sem stofnunin taldi mæla gegn strangari reglunum var að þær myndu leiða til fleiri dauðsfalla í umferðinni. Kæmust ökumenn lengra á bensíntanknum á sparneytnari bílum myndu þeir aka lengra. Sá viðbótarakstur myndi fjölga dauðsföllum til muna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×