Handbolti

Rúnar: Þurfum ekki að skammast okkar fyrir gæðin í deildinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson, nýráðinn þjálfari Stjörnunnar, er spenntur fyrir komandi leiktíð í Olís-deildinni. Hann býst við miklum gæðum í deildinni.

„Mér sýnist flest lið vera styrkja sig frá því í fyrra. Toppurinn verður ennþá breiðari en var á síðasta ári,” sagði Rúnar í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við getum búist við mjög góðum handbolta í deildinni sem við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir,” en heldur Rúnar að það verði meiri gæði í deildinni í vetur?

„Já, sérstaklega á toppnum. Ég á von á því að lið eins og Valur stríði ÍBV. Haukarnir eru ógnasterkir eins og alltaf og svo koma einhver lið þar á eftir. ÍR hefur verið að styrkja sig og ég býst við góðum handbolta í vetur.”

Stjarnan endaði í sjöunda sæti á síðustu leiktíð og er stefnan á að gera betur í ár.

„Við byrjuðum fyrir tveimur vikur með því hugarfari að sókn væri besta vörnin. Við byrjum á öfugum enda en við viljum bæta sóknarleikinn. Við vonumst til að vera kominn í gott stand þegar mótið byrjar en tíminn er knappur.”

En er einhver hrollur í Rúnari að koma til baka eftir svona mörg ár ytra?

„Nei, þetta er fínt. Það er gaman að vera með stráka sem eru viljugir að æfa. Þetta snýst allt um handbolta og minna um íþróttapólitík,” sem hrósar umgjörðinni.

„Þeir sem eru í kringum þetta og eru að leggja sig fram, þeir eiga það skilið. Það verður einnig fróðlegt að sjá hvernig liðin standa sig í Evrópukeppninni í vetur.”

Innslagið má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×