Handbolti

Viktor Gísli í ham í fimm marka sigri á Pólverjum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Viktor og Goði, herbergi 428, var í stuði í dag.
Viktor og Goði, herbergi 428, var í stuði í dag. mynd/hsí
Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum átján ára og yngri byrjaði EM í Króatíu vel. Liðið vann 25-20 sigur á Pólverjum í fyrsta leik.

Jafnt var á öllum tölum í upphafi leiks en svo tók við góður kafli hjá íslenska liðinu sem skilaði liðinu þriggja marka forystu í hálfleik, 12-9.

Ísland var ávallt í forystu í síðari hálfleiknum og náðu okkar menn mest fimm marka forystu. Pólverjar minnkuðu muninn í tvö mörk en nær komust þeir ekki og lokatölur fimm marka sigur okkar manna, 25-20.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik í markinu en hann varði nítján skot. Markahæstur var Dagur Gautason með níu en næstur komu Haukur Þrastarson og Eiríkur Þórarinsson með fjögur.

Næsti leikur liðsins er gegn Svíum á morgun. Svíar eru einnig með tvö stig eftir einn leik en þeir unnu öruggan sigur á Slóveníu, 29-21, í sínum fyrsta leik. Flautað verður til leiks klukkan 14.30 á morgun.

Markaskorarar Íslands: Dagur Gautason 9, Haukur Þrastarson 4, Eiríkur Guðni Þórarinsson 4, Arnór Snær Óskarsson 3, Goði Ingvar Sveinsson 2, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 2, Tumi Steinn Rúnarsson 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×